Seðlabanki Íslands bendir á að Vísir.is hafi leiðrétt tímasetningu á frétt um boðun á blaðamannafund Seðlabankans og Þorsteinn Már Baldvinsson vísar til í yfirlýsingu. Var frétt Vísis tímasett klukkan 9:16 en hið rétta sé að póstur með fundarboðinu hafi borist frá Seðlabankanum klukkan 9:25.
„Fréttin á visir.is sem vísað er til í 4. lið yfirlýsingar Þorsteins Más Baldvinssonar, var ekki skrifuð kl. 09.16 heldur var um að ræða uppfærða frétt sem var skrifuð á þeim tíma um að FME hefði stöðvað viðskipti með bréf Glitnis í Kauphöllinni. Ritstjórn barst póstur frá Seðlabanka Íslands kl. 9.25 og var fréttin uppfærð þá. Í öllum látunum gleymdist hins vegar að uppfæra tímann á fréttinni," segir í athugasemd sem fréttastjóri Vísis birti á vefnum fyrir skömmu.
Í yfirlýsingu Þorsteins Más segir:
„Það að Seðlabanki Íslands sendi ekki frá sér tölvupóst fyrr en kl. 9:25, þar sem formlega er boðað til blaðamannafundar kl. 9:20, breytir því ekki að búið var að boða menn munnlega til blaðamannafundar t.d. sbr. frétt á visir.is kl. 9:16.
Ég stend því við fyrri orð mín um aðdraganda þessa máls. Nú skiptir mestu að allir aðilar snúi bökum saman og leiti leiða til þess að takast á við þá áskorun sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir um þessar mundir.
Ég legg áherslu á að vinnufriður skapist fyrir starfsmenn og stjórnendur Glitnis og mun því ekki tjá mig frekar um samskipti mín við starfsmenn Seðlabanka Íslands," segir í yfirlýsingu frá stjórnarformanni Glitnis.