Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að selja innstæðubréf, verðtryggð verðbréf, og geta fjármálafyrirtæki keypt þau að eigin frumkvæði hvenær sem er frá og með morgundeginum. Seðlabankinn mun áfram greiða vexti af flokknum vikulega á viðskiptadögum bankans og einnig má innleysa bréfin á þeim dögum.
Innstæðubréfin eru rafræn, framseljanleg og hæf til uppgjörs og vörslu í Clearstream, samkvæmt tilkynningu frá Seðlabankanum.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að mikil eftirspurn sé eftir stuttum ríkistryggðum pappírum og þessi viðbótarútgáfa er því líkleg til að hljóta góðar viðtökur.
„Við væntum þess að áhugi komi bæði frá innlendum og erlendum fjárfestum. Í október eru stórir gjalddagar á krónubréfum eða samtals 45 ma.kr. Þar af eru 29 ma.kr. krónubréfa á gjalddaga næstkomandi mánudag. Hugsanlegt er að eigendur þeirra bréfa muni að einhverju leyti framlengja veru sína í íslenskum krónum með kaupum á innstæðubréfum. Sé það reyndin dregur það úr útflæði úr krónunni.
Viðbrögð á gjaldeyrismarkaði voru þó á þann veg að gengi krónunnar hefur lækkað lítillega frá því að fréttin var birt sem er vísbending um að þau áhrif verði ekki veruleg. Þessi útgáfa mun draga krónur úr innlendu fjármálakerfi sem er óæskilegt og því væru mótvægisaðgerðir til að auka krónur í kerfinu afar æskilegar," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.