Northern Rock bankinn í Bretlandi hefur orðið fyrir slíkri ásókn í nokkra af sparnaðarreikningum sínum að hann hefur orðið að loka fyrir nýjar umsóknir. Þetta gerist um ári eftir að viðskiptamenn bankans stóðu í biðröðum eftir því að taka þar út sparifé sitt.
Northern Rock var þjóðnýttur í febrúar sl. en neyddist nú til að grípa til aðgerða vegna þess að allt stefndi í að innflæði af sparifé yrði umfram skilyrðin sem bankanum voru settir við þjóðnýtinguna um að mega ekki vera með meira en 1,5% af heildarinnlánunum í Bretlandi.
Northern Rock þykir núna eitt öruggasta skjól sparifjáreigenda í landinu þar sem ríkisstjórnin hét við þjóðnýtinguna að tryggja öll innlán bankans. Meðan miklar sveiflur hafa verið t.d. á gengi hlutabréfa í HBOS-bankanum hefur sparifé flætt í stríðum straumum yfir á þær þrjár fjármálastofnanir sem heita 100% tryggingu innlána og eru allar í ríkiseigu, þ.e. National Savings & Investments og Post Office auk Northern Rock sem nú aftur ber heiti sitt með rentu eftir að hafa mátt þola nafngiftina Northern Wreck eða Kletta Brakið þegar verst lét.
Post Office eða Pósturinn býður innlánsreikninga en þeir eru reknir af Bank of Ireland og njóta þess vegna 100% innlánstryggingar þeirrar sem írsk stjórnvöld hafa heitið öllum innlánseigendum í írskum bönkum.