Ekki nægði til að róa þandar taugar bandarískra fjárfesta að lög um 700 milljarða dala björgunasjóð hafa tekið gildi þar í landi og verð hlutabréfa lækkaði í kvöld. Bréfin hækkuðu hins vegar meðan á afgreiðslu lagafrumvarpsins stóð í fulltrúadeild þingsins.
Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,5% og er 10.325 stig. Nasdaq vísitalan lækkaði um 1,48% og er 1947 stig og S&P vísitalan lækkaði um 1,35% og er 1099 stig.
Þá lækkaði gengi bréfa deCODE um 10,8% og er 33 sent, hefur aldrei verið lægra.
Afgreiðsla lagafrumvarpsins varð til þess að olíuverð hætti að lækka á heimsmarkaði. Á markaði í New York var lokaverðið 93,88 dalir tunnan og hefur lækkað um 13 dali í vikunni. Í Lundúnum lækkaði verðið um 31 sent tunnan og er 90,25 dalir.