Íslenski sparifjáreigendur óttast að „spilaborgin" geti hrunið í kjölfar Glitnis. Þannig hljóðar fyrirsögn á frétt Bloomberg fréttastofunnar í morgun. Þar er haft eftir Árna Einarssyni, hóteleiganda í Reykjavík að enginn treysti neinum og í bankaheiminum er það traust sem skiptir öllu. „Á meðan fólk treystir þér þá getur þú byggt upp langa dómínókeðju. En um leið og traustið er horfið fer keðjan að hrynja."
Í fréttinni er fjallað um stærð bankanna þriggja og erfið staða Glitnis hafi komið fjármálalífinu úr jafnvægi. Stoðir, stærsti hluthafinn í Glitni, hafi í kjölfarið farið fram á greiðslustöðvun.
Skuldatryggingaálag íslenska ríkisins og þriggja stærstu bankanna sé gríðarlega hátt um þesar mundir og engir bankar í Evrópu njóti jafn lítils trausts á skuldabréfamarkaði og þeir íslensku eins og skuldatryggingaálag þeirra sýni.
Haft er eftir Mikko Ayub, sérfræðingi hjá Nordea Bankanum að Ísland sé í sviðsljósinu vegna þeirrar hættu sem þar ríkir. Krónan hafi fallið um 14% gagnvart evru frá því á mánudag, sama dag og ríkið greindi frá því að það myndi greiða 600 milljónir evra fyrir 75% hlut í Glitni.
Haft er eftir Jónasi Sigurgeirssyni, talsmanni Kaupþings að staða bankans sé traust og hann standi vel fjárhagslega.Fyrir utan höfuðstöðvar Glitnis hitti blaðamaður Bloomberg viðskiptavin bankans sem segir þá hafa áhyggjur af því hvað gerist næst. „Vegna smæðar Íslands og krosseignatengsla er hætta á því að ef einn hlutinn gefur eftir þá muni aðrir fylgja með líkt og spilaborg."
Bill Blain, sem sér um skuldabréfaviðskipti hjá KNG Securities LLP í Lundúnum segir í samtali við Bloomberg að allur markaðurinn hafi nú meiri áhyggjur af Íslandi en nokkru sinni fyrr. „Í fyrsta skipti núna eru þeir sem venjulega eru bjartsýnir áhyggjufullir um hæfni kerfisins."Frétt Bloomberg: Iceland Savers Fear `House of Cards' May Collapse After Glitnir í heild