Yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) segir, að fjármálakreppan í heiminum sé eldskírn og stjórnvöld í Evrópu verði að sýna fram á, að þau geti brugðist við með sama hætti og þau bandarísku. Bandaríkjaþing samþykkti í gær lög um 700 milljarða dala neyðarsjóð sem nota á til að endurreisa bandaríska fjármálakerfið.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri IMF, segir að fjármálakreppan sé áður óþekktur prófsteinn á löndin, sem nota sameiginlegan gjaldmiðil.
Þá sagði Strauss-Kahn, að IMF muni lækka til muna hagvaxtarspár sínar í ljósi ástandsins á fjármálamörkuðum.
Strauss-Kahn átti í dag fund með Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, sem heldur í dag fund með leiðtogum Bretlands, Þýskalands og Ítalíu til að ræða stöðuna.