Robert Preston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, fjallar um efnahagsþrengingarnar á Íslandi í bloggi á vef stofnunarinnar í dag og segir að fjármálamarkaðir hafi flautað Ísland úr leik. Erfitt sé að sjá fyrir sér hvernig landið geti náð sér aftur á strik án alþjóðlegrar aðstoðar.
Bloggfærslan hefur vakið talsverða athygli á vef BBC og hafa tugir lesenda tjáð sig um hana og gert við hana athugasemdir.
Preston segir, að best sé að líta á Ísland sem land sem hafi breytt sér í risastóran vogunarsjóð. Árum saman hafi Ísland greitt hærri vexti en víðast hvar í heiminum og fjármálastofnanir landsins hafi fengið lánaðar peningahrúgur í útlöndum, sem síðan voru endurunnar í fjárfestingar um alla Norður-Evrópu, þar á meðal í Bretlandi.
Uppgangur íslenska bankakerfisins hafi verið efnahagslegt fyrirbæri sem nefnist vaxtamunarviðskipti en þá hafi gríðarlegar fjárhæðir verið teknar að láni á stöðum líkt og Japan, þar sem vextir voru nánast engir, og endurlánaðir til stofnana á hávaxtasvæðum líkt og Íslandi.
Preston segir, að þetta hafi árum saman virst vera öruggur gengismunur milli mismunandi vaxta í heimshagkerfinu. En í raun hafi þetta aðeins enn ein verið pumpan sem dældi í skuldabóluna, sem nú sé orðin vindlaus og skaði okkur öll.
„Hér eru hinar banvænu staðreyndir um Ísland: verg landsframleiðsla jafngildir um 20 milljörðum dala en bankar landsins hafa tekið um 120 milljarða dala að láni í erlendum gjaldmiðlum. Þetta er almennileg skuldsetning - og menn verða að muna að þetta eru aðeins erlendar skuldir viðskiptabankanna," segir Preston.
„Ef þetta væri fyrirtæki og það ætti ekki kost á öðrum lánum (sem Ísland hefur auðvitað) væri skuldastaðan sex sinnum hærri en framleiðnin.
Með öðrum orðum þá hefur Ísland ekki nægar tekjur til að standa undir slíkum skuldum," segir Preston.
Hann segir að ef íslenska ríkisstjórnin myndi ábyrgjast formlega allar þessar skuldbindingar - sem hún kunni að neyðast til í ljósi þess að aðrir bankar og fjármálastofnanir vilji ekki snerta á Íslandi með lengsta stjaka sem hafi verið smíðaður, þá myndu skuldir hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu ná hæðum sem gerðu Bretland á áttunda áratug síðustu aldar hófstillt í samanburði.
Og ef íslenskir skattgreiðendur ættu að axla þær byrðar yrði ekki mikið eftir fyrir nauðþurftir.
„Þetta er heljarinnar klandur," segir Preston.
Hann bætir við, að auðvitað sé hann ekki alveg sanngjarn því bankarnir, sem hafi á heimskulegan hátt tekið allt þetta fé að láni, hafi líka fjárfest í eignum í útlöndum. Þannig hafi mikið af breskum tískuverslunum, fasteignir og Hammers (knattspyrnuliðið West Ham) verið fjármagnað eða sé í eigu íslenskra banka og fjármálamanna. Og þeir sem hafi fengið fé að láni hjá íslenskum bönkum hafi tekið allt of mikil lán. Það þýði, að þeir verði að leita að annarri peningauppsprettu á tímum þegar skuldsett fyrirtæki séu ekki sérlega vinsæl hjá breskum bönkum.
Þess vegna hafi vandamál Íslands bein áhrif á breska hagkerfið og enginn viti í raun hversu tengdir bresku bankarnir eru þeim íslensku gegnum millibankamarkaðinn og afleiðumarkaðinn. Þá sé einn breskur banki, Singer & Friedlander, í eigu Kaupþings.
Ljóst sé að breska fjármálaeftirlitið hljóti að verða órólegt vegna þess að Kaupþing, sem sé engin smásmíði með 73 milljarða dala eignir, hafi það versta tilfelli af fjármálauppdráttasýki sem sést hafi og hefði einhver á föstudag viljað taka út tryggingu á skuldabréfamarkaði til að tryggja endurgreiðslu á skuldabréfi Kaupþings hefði þurft að greiða 625 þúsund pund til að tryggja endurgreiðslu 1 milljónar punda skuldabréfs. Það þýði, að Kaupþing geti ekki gefið út ný skuldabréf þótt bankinn vilji. Jafnvel íslenska ríkið sé komið í ónáð á markaðnum.
„Hver verða þá örlög vesalings skuldsetta Íslands?
Þótt seðlabankinn hafi frekar mikinn gjaldeyrisforða - nóg, að sögn seðlabankastjóra til að mæta innflutningi í átta til níu mánuði - er erfitt að hjá hvernig landið kemst aftur á flot án alþjóðlegrar aðstoðar," segir Preston.