Róbert Wessman, fyrrverandi forstjóri Actavis, segir möguleg kaup á hlutabréfum Glitnis í skoðun hjá félagi sínu, Salt Investments ehf., auk annarra aðila. Hann hafi áhuga á að taka þátt í breiðari aðkomu að bankanum ásamt hluthöfum, lífeyrissjóðum og erlendum bönkum. Ríkið héldi þá ráðandi hlut en fleiri kæmu að kaupunum.
„Við höfum verið að skoða hvort það sé einhver hljómgrunnur fyrir því að breikka hópinn. Leyfa núverandi hluthöfum að taka þátt og hugsanlega lífeyrissjóðum. Við kæmum að þessu og gætum sennilega fengið með okkur erlenda banka.“
Róbert segir tillöguna hugsaða til að ná meiri sátt og skapa ró á íslenskum mörkuðum. Hann segir undirtektir hafa verið kannaðar hjá ýmsum sem mögulega kæmu að kaupunum en að of snemmt sé að segja til um hverjar þær hafi verið. „Það er mikið að gera hjá öllum, vegna falls krónunnar og annars. Þetta verður skoðað á næstu dögum.“
Aðspurður hvort tíðinda sé að vænta á næstu dögum segir Róbert hluthafafund hafa verið boðaðan ellefta október. „Menn hafa verið að skoða fleiri leiðir og þessi leið sem við höfum lagt til gæti verið ein þeirra.“