Ken Rogoff, sem starfaði áður sem aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að aðgerðaáætlunin, sem bandaríska þingið samþykkti í gær, muni ekki skila tilætluðum árangri til að koma fjármálakerfi landsins til bjargar.
Breska blaðið Sunday Telegraph hefur eftir Rogoff, að leggja þurfi fram 2000 milljarða dala til að kaupa „eitruð" skuldabréf fjármálastofnana en aðgerðaáætlun Bandaríkjastjórnar gerir ráð fyrir að allt að 700 milljörðum dala verði varið til þess.
Blaðið segir, að áhrif fjármálakreppunnar á breska hagkerfið séu það mikil, að búist sé við því að stjórn Englandsbanka muni slaka á baráttu sinni gegn verðbólgu og ákveða í næstu viku að lækka stýrivexti um að minnsta kosti 0,25 prósentur.