Breskir fjölmiðlar hafa um helgina fjallað mikið um erfiðleika íslensku bankanna og eftir að ríkið yfirtók Glitni fyrir viku hafa verið vangaveltur um hvort hinna íslensku bankanna bíði sömu örlög, einkum þó Kaupþings, sem tekið hefur virkan þátt í bresku viðskiptalífi síðustu árin. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings vísaði því alfarið á bug í gærkvöldi.
„Gegnum árin höfum við byggt upp sterkan og fjölbreyttan banka," hefur Sunday Times eftir honum í dag. „Við erum með eitt sterkasta eiginfjárhlutfall í evrópska bankageiranum og góða lausafjárstöðu og hlutfall útlána á móti innlánum er um 50%.
Við erum með gott eignasafn og fjölbreytt lánasafn. Þá er um 70% starfseminnar utan Íslands. Kaupþing hefur, og mun áfram skipuleggja starfsemi sína með forsjálni og í ljósi sterks grundvallar okkar höfum við auðvitað áhyggjur þegar við heyrum lagt út af illgjörnum orðrómi og æsifréttum með óábyrgum hætti.
Við biðjum fólk að horfa á staðreyndirnar en ekki orðróm og aðdróttanir," segir Sigurður.