Euler Hermes, breskt viðskiptatryggingafélag hefur sagt upp samningum við nokkra af birgjum Baugs í Bretlandi, að því er breska blaðið Independent on Sunday segir frá í dag. Atradius, stærsta félag Bretlandseyja í þessari starfsemi, hefur hins vegar ekki sagt upp sínum samningum og segjast forsvarsmenn þess ekki skilja ákvörðun Euler Hermes.
Blaðið segir að Euler Hermes hafi í síðustu viku tilkynnt Baugi, að það muni ekki veita birgjum breskra fyrirtækja Baugs viðskiptatryggingu. Blaðið tengir þessa ákvörðun við fréttir af yfirtöku íslenska ríkisins á Glitni. Independent segir að viðræður standi yfir milli Baugs og Euler um málið.
Blaðið hefur eftir talsmanni Baugs, að ákvörðun Euler komi á óvart og hafi verið tekin vegna misskilnings um áhrif efnahagsástandsins á Íslandi á starfsemi Baugs. Fyrirtækið hafi lýst því yfir að fyrirtæki Baugs í Bretlandi tengist með engum hætti íslenska hagkerfinu. Flest þeirra séu fjármögnuð af alþjóðlegum bönkum og standi sig vel í núverandi markaðsaðstæðum.
Viðskiptatryggingar tryggja félög gegn því, að þau fái ekki viðskiptaskuldir greiddar ef fyrirtæki, sem þau eiga í viðskiptum við, verða gjaldþrota eða lenda í greiðsluerfiðleikum. Fái birgjar ekki slíkar tryggingar krefjast þeir jafnan staðgreiðslu eða strangari lánasamninga.