Baksvið: Frá aðgerðapakka til andrýmis og til alvarlegs ástands

Formenn stjórnarandstöðuflokkana ræða við fjölmiðla eftir fund í morgun með …
Formenn stjórnarandstöðuflokkana ræða við fjölmiðla eftir fund í morgun með Geir H. Haarde og Össuri Skarphéðinssyni mbl.is/Árni Sæberg

Viðræður og fundarhöld ríkisstjórnar um aðgerðir til að mæta aðsetjandi vanda í fjármálalífi þjóðarinnar hafa verið nokkuð sviptingasamar síðasta sólarhringinn. Í fréttum fram eftir degi í gær, sunnudag, var jafnan talað um að verið væri að vinna að aðgerðarpakka með víðtæku samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila. Þegar kom fram á kvöld var eins og hljóðið breyttist og í kringum miðnætti sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að ekki væri þörf á aðgerðaáætlun og litlu seinna að stjórnvöld hefðu nú meira andrými en áður. Í morgun að loknum ríkisstjórnarfundi sagði hins vegar forsætisráðherra aftur að ástandið væri „mjög alvarlegt“.

Miðað við viðbrögð lesenda og athugasemdir sem þeir hafa gert við þessi síðustu ummæli forsætisráðherra í frétt mbl.is er greinilegt að þeim finnst skilaboðin mjög misvísandi.

Hér á eftir er stiklað á stóru í fréttum fréttavefjar og Morgunblaðsins undanfarinn rúman sólarhring.

Sunnudagur 5. október, kl. 11:17 

FUNDUM HALDIÐ ÁFRAM Í RÁÐHERRABÚSTAÐNUM

Fundarhöld ráðherra hófust í Ráðherrabústaðnum að nýju um klukkan níu í morgun. Þar hafa fjórir ráðherrar m.a. rætt við forsvarsmenn íslensku  bankanna.Geir H. Haarde forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson starfandi utanríkisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra áttu í morgun fund með Sigurði Einarsson stjórnarformanni Kaupþings og Hreiðari Má Sigurðssyni forstjóra. Síðan áttu þeir fund með þeim Halldóri Kristjánssyni og Sigurjóni Árnasyni, bankastjórum Landsbankans og Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Straums-Burðaráss.

Sunnudagur 5. október, kl. 11:37 

SÁTTAHÖNDIN AÐ ÞREYTAST

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagðist í samtali við blaðamann mbl.is í morgun vera að verða svolítið þreyttur í handleggnum af því að halda útréttri sáttahönd í átt til ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur sagðist hann ekki hafa orðið var við það að áhugi væri fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að taka í útrétta sáttahönd stjórnarandstöðunnar og vinna með henni að lausn þess vanda sem nú sé uppi í íslensku efnahagslífi. Hann verði því að líta svo á að þeir sem sitji við stjórnvölinn telji sig einfæra um að ráða við aðstæður. Menn verði að vona það besta en honum hafi þó þótt það litla sem ráðamenn hafi fengist til að segja þjóðinni undir kvöld í gær vera heldur innistæðulaust og vonleysislegt. „Það hljómaði ekki eins og búið væri að stilla saman strengi," sagði hann. 

Sunnudagurinn 5. október, kl. 12:38 

FJÖLGAR Í RÁÐHERRABÚSTAÐNUM

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, hafa nú bæst í hóp þeirra sem sitja fundi ráðherra, embættismanna og sérfræðinga í Ráðherrabústaðnum.

Þorgerður Katrín vildi ekki tjá sig við blaðamenn er hún mætti til fundarins en neitaði jafnframt að neita því að verið væri að ræða hugsanlega sameiningu bankanna.  

„Við höfum verið á óformlegum fundum í morgun og í gær en erum í raun bara að bíða eftir kallinu,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna. mbl.is.

Sunnudagur 5. október, kl. 14.26 

LÍFEYRISSJÓÐIR BÍÐA EFTIR KALLI

„Við höfum verið á óformlegum fundum í morgun og í gær en erum í raun bara að bíða eftir kallinu,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Hann segist ekki gera ráð fyrir öðru en að vera boðaður á fund í Ráðherrabústaðnum þegar líður á daginn. „Já það verður að gerast, öll okkar vinna byggist á því að ná endum saman svo við búumst við því.“

„Við lögðum fram ákveðna aðgerðaráætlun fyrir stjórnvöld í gær og hún er væntanlega í skoðun núna. En það eru fleiri aðilar en stjórnvöld sem þurfa að koma að því, þetta verður að fara í sérfræðingavinnu og stjórnvöld kalla þá aðila til sín, þ.á.m. Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Við höfum ekki heyrt neitt ennþá en bíðum eftir kallinu.“

Samtök atvinnulífsins hafa einnig rætt málin sín á milli í dag og við Alþýðusambandið, en hafa ekki verið kölluð til fundar við ríkisstjórnina enn, að sögn Vilhjálms Egilssonar. „Við höfum nú reiknað frekar með því að vera kölluð til fundar í dag en það eru ekki við sem ráðum ferðinni,“ segir Vilhjálmur.

Sunnudagur 5. október kl. 14:41

RÁÐHERRAR KOMA OG FARA

Gestkvæmt er áfram í Ráðherrabústaðnum þar sem fundahöld hafa staðið yfir frá því klukkan 9 í morgun. Nú laust eftir klukkan 14 komu Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, af fundi með ráðherrum.

Enginn vildi tjá sig við fréttamenn, sem bíða fyrir utan húsið.

Gert er ráð fyrir að fulltrúar samtaka vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða komi til fundar við ráðherra nú síðdegis.

Sunnudagur 5. október, kl. 15:27

 BANKARNIR VERÐA AÐ SELJA EIGNIR ERLENDIS

„Forsenda fyrir okkar aðkomu að þessu máli er að bankarnir selji hluta eigna sinna erlendis," segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir að það sé forgangsmál að lækka skuldir þjóðarbúsins erlendis og það sé ekki nóg að lífeyrissjóðirnir flytji heim fjármuni. Bankarnir verði að gera það líka.

Eiríkur situr í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en lífeyrissjóðirnir hafa kynnt fyrir ríkisstjórninni tillögu um að selja eignir sjóðanna erlendis fyrir um 200 milljarða og flytja þá heim. Hugmyndin er að ávaxta þessa fjármuni í ríkistryggðum skuldabréfum.

Sunnudagur 5. október, kl. 15:54 

BIÐLAÐ TIL HELSTU VINAÞJÓÐA

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, staðfesti við fjölmiðla fyrir stundu að biðlað hefði verið til seðlabanka „okkar helstu vinaþjóða“ um aðstoð út úr efnahagsvandanum, en ekki lægi fyrir hver viðbrögð þeirra væru.

Hann sagði að forsætisráðherra myndi gerar grein fyrir aðgerðapakkanum í heild þegar hann væri tilbúinn. Björgvin er nú mættur aftur til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu ásamt forkólfum bankanna, þ.e. Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni frá Kaupþingi, Björgólfi Thor Björgólfssyni og þeim Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni hjá Landsbankanum.

Þá er Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, einnig mættur til fundar að nýju.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór af fundi í Ráðherrabústaðnum um þrjúleytið í dag og sagði þá að menn væru að vinna vinnuna sína. „Er ekki betra að vanda til verka heldur en að fara út með eitthvað sem ekki er rétt,“ sagði Þorgerður.

„Auðvitað eru menn að reyna að setja sér tímamörk og koma með eitthvað fyrir morgundaginn,“ sagði Þorgerður og bætti við að menn væru að vinna vinnuna sína og nú væri að nýju verið að ræða við Samtök atvinnulífisin og verkalýðshreyfinguna.

Sunnudagur 5. október, kl. 21:51 

RÍKISSTJÓRNIN FUNDAR MEÐ LANDSBANKAMÖNNUM

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru nú mættir til fundar í Ráðherrabústaðnum og sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þegar hann mætti fyrir stundu að verið væri að kynna ríkisstjórninni í heild það sem fram hefði komið á fundum dagsins

Bankastjórar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson eru einnig mættir aftur til fundar. „Við erum bara komnir til að veita sem bestar upplýsingar,“ svaraði Halldór aðspurður hvers vegna þeir væru boðaðir til fundarins.

Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri og Tryggvi Þór Herbertsson fjármálaráðgjafi forsætisráðherra eru einnig staddir í Ráðherrabústaðnum.

Fulltrúar vinnumarkaðarins og verkalýðsins fóru af fundi með forsætisráðherra  um níuleytið í kvöld eftir klukkustundar langan fund. Stuttu eftir að fundinum lauk komu í Ráðherrabústaðinn Glitnismenn, þeir Lárus Welding og Þorsteinn Már Baldvinsson auk Óskars Magnússonar en þeir eru nú farnir.

Sunnudagur 5. október, kl. 22:49  

ÞÉTTSKIPUÐ TJARNARGATAN

Fjölmiðlar hafa staðið vaktina utan við Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu alla helgina og beðið tíðinda þrátt fyrir hryssingslegt veður. Geir H. Haarde sá aumur á fjölmiðlamönnum í dag og kallaði eftir rútu sem komið var fyrir frammi við bústaðinn svo hægt væri að leita sér skjóls frá kuldanum og reglulegum rigningarskúrum.

Ráðherrabústaðurinn hefur verið umsetinn ekki aðeins af öllum helstu fjölmiðlum Íslands heldur hafa þó nokkrir fulltrúar erlendra fjölmiðla verið á svæðinu, þ.á.m. frá BBC og Daily Telegraph. Bresku fjölmiðlamennirnir segjast að sögn vera fyrst og fremst að fylgjast með þróun mála hjá íslensku bönkunum, sem geti haft umtalsverð áhrif á breskt efnahagslíf.

Sunnudagur 5. október, kl. 22:49  

EKKI ÞÖRF Á AÐGERÐARPAKKA

„Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum,“ sagði Geir H. Haarde þegar hann gekk af fundi með ríkisstjórninni í Ráðherrabústaðnum fyrir stundu.

Hann sagðist ánægður með fundi helgarinnar, nú væri ekki lengur jafnmikil spenna í málunum eins og verið hefði fyrir helgi. Hann sagði almenna samstöðu ríkja um að íslensku bankarnir þurfi nú að minnka umsvif sín á erlendri grundu.

„Ég er mjög ánægður með viðbrögð aðila vinnumarkaðarins um það sem við höfum rætt við þá. Við höfum verið að fara yfir þessi mál öll með íslensku bönkunum til að tryggja fjármálastöðugleika og innistæðu almennings í bankakerfinu og ég er mjög ánægður með það að bankarnir ætli að minnka við sig.  Það er mjög góður vilji hjá bönkunum um að selja eignir í útlöndum og ég tel að það sé nauðsynlegt.“

Geir sagði að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana hér og nú og hann teldi heldur ekki ástæðu til þess. Hann neitaði því að búið væri að útvega 500 milljarða lánalínu frá Seðlabanka Evrópu. Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á tilkynningu fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Fundi ríkisstjórnarinnar er nú lokið og sagðist Geir vera á leið á fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. „Svo ætla ég heim og vonast til að geta fengið smá hvíld. Það er varla að ég sé búinn að borða morgunmat.“

Mánudagur 6. október kl. 00:07

HÖFUM MEIRA ANDRÝMI

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokks í kvöld, að eftir fundahöld dagsins væri ljóst að meira andrými væri fyrir næstu skref í málinu, eins og hann orðaði það.

Hann sagði, að ekki væri búið að ganga frá samkomulagi við lífeyrissjóði um að þeir færi erlendar eignir heim vegna þess að enn væri ósamið um allskonar tæknileg atriði.

Hann vildi ekki gefa neitt upp varðandi viðræður við Seðlabanka Evrópu og norrænu seðlabankana. Inntur eftir því hvort rétt væri að bankarnir hefðu fallist á að selja eignir fyrir 200 milljarða til jafns við þá upphæð sem lífeyrissjóðirnir hyggðust flytja inn til landsins, eins og þeir hefðu gert kröfu um vildi hann engu svara heldur. „Það er mál sem bankarnir verða að ákveða, hvað þeir geta selt mikið og komið með heim.“

Geir ítrekaði, að innstæður á reikningum í bönkum og sparisjóðum hér á landi verði tryggðar að fullu, það ábyrgist ríkisstjórnin.

Hann sagðist myndu hitta forustumenn stjórnarandstöðunnar klukkan 9:30 í fyrramálið til að setja þá inn í mál en ekki hefði gefist tími til þess í dag.  

Hann mun halda fundarhöldum áfram í kvöld en gaf ekki upp með hverjum hann myndi funda og sagði í léttum tóni að það yrði leynifundur að næturlagi.

Mánudagurinn 6. október, kl. 6.35

FUNDI LAUK Á ÞRIÐJA TÍMANUM Í NÓTT

Björgvin G. Sigurðsson sagði við sama tækifæri að ekki hefði unnist tími til að ganga frá þeim þætti málsins sem sneri að lífeyrissjóðunum, enda hefði gríðarlegt álag verið á ríkisstjórninni um helgina.

„Við náðum fínum áfanga um helgina. Það er ekki næstum því sama spenna, háspenna í ástandinu eins og var. Við erum búin að eiga mjög gagnlegar og fínar viðræður við bankana og lífeyrissjóðina [...] Svo eigum við bara eftir að lenda því, bæði hvað varðar kjarasamninga, innkomu lífeyrissjóðsfjármagns og niðurtröppun bankanna út á við sem í rauninni er stóra málið. Svo liggur það afdráttarlaust eftir helgina, til að bæta því við, að við munum ábyrgjast allar innistæður í bönkunum án hámarks.“

Þá sagði Björgvin að ekki stæði á bönkunum að koma með fjármagn inn, þeir séu mjög áfram um að trappa niður eignir erlendis og þar skorti engan samstarfsvilja.

Fundi fjögurra íslenskra ráðherra, Fjármálaeftirlitsins og ráðgjafa frá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan lauk á þriðja tímanum í nótt.

RÚV hafði í morgun eftir viðskiptaráðherra eftir fundinn að drög að aðgerðaáætlun væru langt komin. Óvíst væri hvort viðskipti hæfust með hluti í viðskiptabönkunum í kauphöllinni við opnun.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði ennfremur að ekki væri útilokað að yfirlýsing yrði gefin út með morgninum.

Mánudagur 6. október, kl. 6.39 

SAMEIGINLEG AÐKOMA AÐ GLITNI

Stjórnendur Kaupþings og Landsbankans náðu í gær samkomulagi um hugmyndir um hvernig bankarnir tveir gætu unnið saman að því tryggja stöðugleika í fjármálalífinu í samvinnu við ríkisstjórn og Seðlabanka, að því er fram kemur í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu.

Bankarnir leggja m.a. til að ríkisstjórnin ákveði að fara þá leið með Glitni sem farin var í Washington í lok septembermánaðar, þegar Washington Mutual, stærsti lána- og sparisjóður Bandaríkjanna, varð gjaldþrota og JP Morgan keypti hluta eigna hans.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu forsvarsmenn Kaupþings og Landsbanka ríkisstjórninni grein fyrir sameiginlegri tillögu sinni á fundi um kl. 17 í gær.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann vildi ekkert um þetta mál segja. „Við höfum setið á fundum hér í allan dag með ýmsum aðilum en það er ekki tímabært að tilkynna sérstakar aðgerðir. Við eigum enn eftir að ljúka ýmsum málum.“

Geir sagði að ákveðnir áfangar hefðu náðst í starfi helgarinnar en jafnframt að ákveðið svigrúm hefði myndast til þess að vinna áfram að málum. Hann kvaðst ekki geta áætlað hvenær ríkisstjórnin yrði tilbúin til að kynna aðgerðaáætlun sína.

Efnislega fengust ekki aðrar upplýsingar um tillögu bankanna í gærkvöldi en þær að forsvarsmenn þeirra teldu að í nokkrum skrefum, með aðkomu ríkissjóðs, yrði hægt að tryggja hér stöðugleika kerfisins og að þær aðgerðir sem bankarnir legðu til fælu það í sér að íslenska bankakerfið myndi styrkjast en minnka.

Stjórnendur lífeyrissjóðanna eru tilbúnir til að flytja 200 milljarða af eignum lífeyrissjóðanna heim í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforðann. Þeir settu hins vegar þau skilyrði að bankarnir seldu einnig eitthvað af erlendum eignum sínum. Forystumenn lífeyrissjóðanna töldu í gærkvöldi að ekki lægju fyrir skýr svör um áform bankanna. Geir sagði hins vegar um miðnætti í gær að bankarnir myndu selja eignir í útlöndum. „Það er mjög góður vilji hjá bönkunum til að selja eignir í útlöndum og ég tel að það sé nauðsynlegt.“

Mánudagur 6. október, kl. 9:47

STAÐAN MJÖG ALVARLEG

Stuttum ríkisstjórnarfundi er lokið í stjórnarráðinu og að fundi loknum vildi Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lítið tjá sig um stöðu mála annað en að staðan væri mjög alvarleg. Hann mun hitta stjórnarandstöðuna nú á fundi í húsakynnum Alþingis og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna klukkan 11 í ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu.

Í nótt sendi ríkisstjórnin frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.

Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til."

Þetta þýðir að ríkissjóður tryggir allar innistæður sparifjáreigenda sem falla undir skilgreiningu innistæðudeildar Tryggingasjóðsins og þær fjárhæðir sem eru hærri en tryggingasjóður tryggir með formlegum hætti samkvæmt lagana hljóðan mun ríkissjóður tryggja.

Mánudagur 6. október, kl. 11:52

LAUNÞEGASAMTÖKIN EKKI BOÐUÐ TIL FUNDA

Samtök launþega hafa ekki verið boðuð til fundar með stjórnvöldum og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segist ekki hafa minnstu hugmynd um hver staðan sé núna.

„Við komum að þessu með þeim hætti að við væru þátttakendur í einhverjum stórum pakka eins og um var talað. Okkar aðkoma byggðist á því að þau mál sem við erum með uppi væru þar inni og ekki að eitthvað væri plokkað út úr því. Ég held að aðkoma okkar sé ekki inn í myndinni á þessu augnabliki, þó ég ætli ekkert að fullyrða um hvað gerist á næstu dögum," segir hann.

Grétar segir að ASÍ, félög opinberra starfsmanna og Samtök atvinnulífsins hafi átt rúmlega klukkustundar langan fund með ríkistjórninni kl.  20 í gærkvöldi og þeir hafi svo átt von á að verða aftur kallaðir til fundar síðar um kvöldið en ekkert hafi heyrst í ríkisstjórninni eftir þetta.

Miðstjórn ASÍ kom svo saman seint í gærkvöldi. „Það næsta sem við heyrum þegar við erum á miðjum miðstjórnarfundi er að komið hafi fram í viðtali við forsætisráðherra að búið væri að leysa málið. Auðvitað fagnar maður því," segir Grétar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK