Breska blaðið The Times hefur á fréttavef sínum í kvöld eftir heimildarmönnum í fjármálahverfi Lundúna, að forsvarsmenn Baugs hafi átt einkaviðræður um að selja einhverjar eignir félagsins í Bretlandi og reyni einnig að fá banka til að lána fyrirtækinu út á aðrar eignir.
„Það fara fram leynilegar viðræður," hefur blaðið eftir einum heimildarmanni.
Talsmaður Baugs neitar því hins vegar, að slíkum samræðum hafi fjölgað í síðustu viku.
Times hefur einnig eftir heimildarmönnum á fjármálamarkaði, að Kaupþing hafi gefið til kynna að Singer & Friedlander, dótturfélag bankans í Lundúnum, gæti verið til sölu. Aðrar heimildir segi að verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, sem Landsbanki seldi í byrjun vikunnar til Straums, kunni að verða til sölu á ný.
Straumur segist ekki hafa nein áform um að selja félagið en blaðið segir að það kunni að hafa breyst eftir atburði dagsins.