Lokað hefur verið fyrir viðskipti með Exista hf., Glitni banka hf., Kaupþing banka hf., Landsbanka Íslands hf., Straum Burðarás Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. í Kauphöll Íslands. Áður hafði verið tilkynnt um að fyrirtækin sem nú hefur verið lokað fyrir viðskipti með hafi verið sett á athugunarlista vegna umtalsverðrar óvissu varðandi verðmyndun vegna hættu á ójafnræði meðal fjárfesta. Hlutabréf Kaupþings hafa lækkað um 7,33% í Kauphöllinni í Stokkhólmi í morgun en eins og hér kemur fram að ofan er lokað fyrir viðskipti með bankann í Kauphöll Íslands.
Í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með félögin er tekin til að vernda jafnræði fjárfesta á meðan beðið er eftir tilkynningu.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,56% frá því viðskipti hófust klukkan tíu í morgun. Century Aluminum hefur lækkað um 10,62%, Færeyjabanki um 5,45% og Marel um 2,95%. Ekkert félag hefur hækkað í verði í morgun.
Í Ósló nemur lækkun vísitölunnar 9,18%, Kaupmannahöfn 6,73%, Stokkhólmur 6,28% og Helsinki 5,76%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 6,67%.