Undir blálok blaðamannafundar með erlendum blaðamönnum í gær fékk Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þá spurningu hvert Íslendingar hefðu leitað fyrir utan Rússlands, um gjaldeyriskiptasamninga eða lán. Geir sá ástæðu til að þakka sérstaklega fyrir spurninguna en svaraði síðan orðrétt:
„Við höfum allt þetta ár reynt að fá vini okkar til að gera gjaldeyrisskiptasamninga eða að fá annarskonar stuðning undir þessum afar óeðlilegu kringumstæðum. Við höfum ekki fengið þann stuðning, sem við óskuðum eftir frá vinum okkar og þegar þannig stendur á verðum við að leita að nýjum vinum."
Þegar hann var í kjölfarið spurður hvor þetta ylli vonbrigðum svaraði hann að bragði: „Auðvitað, “ og bætti svo við: „Við höfum gert viðkomandi stjórnvöldum þetta ljóst." Hann ítrekaði hins vegar að Norðurlöndin hefðu staðið með Íslendingum og gert gjaldeyrisskiptasamninga en aðrir ekki.
Íslendingar sniðgengnir
Ýmsir hafa í framhaldi þessa velt því fyrir sér við hverja forsætisráðherra hafi átt þegar hann vitnaði til vina sem ekki hefðu svarað beiðni okkar. Til að svara því liggur beinast við að rifja upp frétt hér á mbl.is frá 24. september undir fyrirsögninni Seðlabankinn ekki með:
„Seðlabankar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, auk Ástralíu, hafa gert samning um aðgang að lausu fé hjá bandaríska seðlabankanum til að auðvelda skammtíma fjármögnun í dollurum. Athygli vekur að íslenski seðlabankinn er ekki þátttakandi í samstarfinu.
Um er að ræða svokallaða gjaldeyrisskiptasamninga (currency swap lines) milli seðlabanka þessara ríkja og Bandaríkjanna. Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni hafa bankarnir aðgang að allt að 30 milljörðum dollara og á það að létta á þrýstingi á alþjóðlegum mörkuðum sem reiða sig á fjármögnun í þeim gjaldmiðli.
Þetta er sambærilegur samningur sem Seðlabanki Íslands gerði fyrr á árinu við þrjá norræna seðlabanka. Það veitti honum aðgang að 500 milljónum evra frá hverjum þeirra, alls 1,5 milljónum evra.
Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka traust og flæði á milli fjármálastofnana svo þær verði aftur tilbúnar að lána hver annarri í stað þess að hamstra gjaldeyri.
Eftir að þetta var tilkynnt lækkaði álag á fjármögnun ástralska banka, sem var í hæsta gildi frá því að Bear Stearns fór á hliðina fyrir hálfu ári, samkvæmt Bloomberg.
Í gær ákvað norski seðlabankinn að bjóða þarlendum bönkum gjaldeyrisskiptasamninga til einnar viku. Er samningunum ætlað að auka flæði á norskum gjaldeyrismarkaði, en skortur hefur verið á gjaldeyri þar í landi undanfarna daga og verð hækkað mikið. Einkum hefur verið skortur á bandaríkjadölum og þurfti fyrir helgi að loka tímabundið fyrir gjaldeyrisviðskipti í kauphöllinni í Ósló vegna þess.
Sama ástand hefur ríkt á Íslandi og víðar. Fjármálastofnanir hér á landi eru tregar að lána gjaldeyri sín á milli. Seðlabankinn lánar enn sem komið er bara íslenskar krónur. Þessi staða er meðal annars orsök þess að ávinningur útlendinga af því að kaupa jöklabréf hefur minnkað. “
Talsverðar umræður urðu hér á landi vegna þessa og leitað eftir svörum Seðlabanka Íslands um ástæður fyrir því að Ísland skyldu skilið eftir en án svara til að byrja með. Hinn 26. september sl. sendi þó bankinn út eftirfarandi fréttatilkynningu:
„Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Seðlabanki Bandaríkjanna gert tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga við fjóra seðlabanka til þess að leysa úr bráðaþörf fyrir Bandaríkjadali sem upp kom í viðkomandi löndum. Samningar þessir eru annars eðlis en þeir sem Seðlabanki Íslands gerði við þrjá norræna seðlabanka í maí sl.
Seðlabanki Íslands hefur átt viðræður við Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum vikum. Ekki voru taldar ástæður eða efni til þess að gera á þessu stigi saming við Seðlabanka Íslands. Alls ekki væri þó útilokað að slíkur samningur yrði gerður síðar ef aðstæður gefa tilefni til.“
Tilkynningin tormelt
Tilkynning Seðlabankans þótti loðin og jafnvel vekja upp fleiri spurningar en hún svaraði eins og reyndar var lýst samdægurs á vef Kaupþings, Hálf fimm fréttum. Um þetta sagði svo í frétt hér á mbl.is:
Greiningardeild Kaupþings segir að tilkynning Seðlabanka Íslands, þar sem fram kemur að ekki voru taldar ástæður eða efni til þess að gera á þessu stigi gjaldeyrisskiptasamning við Seðlabanka Íslands. Alls ekki væri þó útilokað að slíkur samningur yrði gerður síðar ef aðstæður gefa tilefni til, sé torskiljanleg þar sem ekki kemur fram hvor aðilinn taldi ekki ástæðu til þess að gera slíkan samning.
Hljóta að vera ástæður og efni fyrir slíkum samningi
„Ljóst er að frá sjónarhóli Íslendinga hljóta „ástæður og efni" að vera fyrir slíkum samning þar sem nú ríkir lausafjárkrísa á erlendum mörkuðum, nafngengi krónu er undir þrýstingi og raungengi krónu er í sögulegu lágmarki. Hér gildir hið fornkveðna að oft var þörf en nú er nauðsyn. Þessi yfirlýsing er því nokkuð tvíræð – en sýnir kannski einna helst að enn sé langt bíða einhverra aðgerða frá Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði.
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi
Eins og fram hefur komið hefur bandaríski seðlabankinn (FED) í vikunni opnað skiptalínur við norska, sænska, danska og ástralska Seðlabankann í kjölfar mikils óróa á fjármálamörkuðum. Samhliða var framlengt samningum við alla stærstu seðlabanka í heiminum. Í dag má segja að línunum hafi verið komið í gagnið þar sem gríðarlegur titringur ríkir á millibankamörkuðum í kjölfar bankagjaldþrota og almennrar óvissu Helstu seðlabankar heimsins hafa keppst við að smyrja fjármálakerfið með innspýtingu lausafjár, bæði í innlendum og erlendum gjaldmiðlum. Sömuleiðis hafa veðheimildir í endurhverfum viðskiptum víða verið verulega rýmkaðar.
Til eru dæmi um að ekki sé lengur þörf á verðbréfum í endurhverfum viðskiptum, til dæmis gerði danski seðlabankinn bönkum kleift að nota umframeiginfjárhlutfall (CAD) í endurhverfum viðskiptum í dag.
Yfirlýsingar seðlabanka eru allar á einn veg, það er að fjármálastöðugleika skuli viðhaldið sama hvað það kosti. Flestar aðgerðirnar fela því í sér að veita bönkum fyrirgreiðslu fram yfir Skiptasamningar sem seðlabankar hafa gert við Bandaríska seðlabankann ná til 30. janúar og er tilgangurinn væntanlega að koma í veg fyrir að lausafjárskorturinn endurtaki sig þegar kemur að árslokum," að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.
Geir og Brown ræddu saman
Þá hefur komið fram hér á mbl.is að Geir H. Haarde og Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, ræddust við á sunnudag sl. samkvæmt frétt á fréttavef Bloomberg-veitunnar og var þess getið að mikil umræða hafi verið í breskum fjölmiðlum um helgina um erfiða stöðu íslensku bankanna og hugsanleg áhrif á efnahagslíf í Bretlandi. Ekki liggur fyrir hvort í þeim viðræðum hefur verið orðuð hugsanleg aðkoma Englandsbanka í stuðningi við íslensku bankanna vegna augljósra hagsmuna margra breskra fyrirtækja í þessu efni. Geir vildi ekki á blaðamannafundinum fyrr í dag upplýsa hvaða „vinir“ hefðu ekki svarað ákallinu.
Evrópski seðlabankinn skrúfaði fyrir
Í Morgunblaðinu í dag er hins vegar greint frá því hvernig Seðlabanki Evrópu kippti skyndilega að sér höndunum og lánalínur til íslensku bankanna lokuðust, eða eins og segir frá í blaðinu:
„Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hætti Seðlabanki Evrópu við að gjaldfella stór lán Landsbanka Íslands og Kaupþings á sunnudagskvöld. Var lán Landsbankans að upphæð 500 milljónir evra og Kaupþings 800 milljónir evra. Það varð meðal annars til þess að forsætisráðherra varð bjartsýnni á að staða íslensku bankanna myndi batna. Hins vegar fór allt á versta veg í gærmorgun eins og Sigurður (Einarsson í Kaupþingi) staðfestir við Morgunblaðið.
Kaupþing bar raunar til baka í mbl.is í morgun, að til hefði staðið að gjaldfella lán Seðlabanka Evrópu til bankans.