Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um að hann hafi verið reiðubúinn að eiga viðskipti á millibankamarkaði á gengi sem tekur mið af gengisvísitölu 175 og að evran kosti 131 krónu. Skv. upplýsingum sem fengust úr seðlabankanum eiga viðskipti á því gengi aðeins við þar. Í öðrum viðskiptum ræðst gengið á markaði og í bönkum kostaði evran um og yfir 200 krónur.
Þeir sem eiga í gjaldmiðlaviðskiptum við viðskiptabankana kaupa því gjaldeyri á öðru gengi en því sem seðlabankinn vill eiga viðskipti með á millibankamarkaði.
Bankarnir eiga í gjaldmiðlaviðskiptum við sína viðskiptavini á svokölluðu markaðsgengi, sem hefur ekki verið - og þarf ekki að vera - nákvæmlega það sama og hið opinbera skráða gengi, eða það sem er notað á millibankamarkaði.
Markaðsgengið getur verið ólíkt milli bankanna og það getur hreyfst. Enda um annan markað að ræða heldur en viðskipti á millibankamarkaði.
Á vef seðlabankans kemur fram að opinbera gengisvísitala dagsins var 181,7 stig. Gengið á millibankamarkaði hreyfist og breytist hins vegar yfir daginn.