Lokað hefur verið fyrir úttektir viðskiptavina breska netbankans Icesave, sem er í eigu Landsbankans. Á vef Icesave er aðeins tilkynning þar sem segir, að ekki sé tekið á móti innlánum eða afgreiddar úttektir sem stendur. Er beðist velvirðingar á þeim óþægindum, sem þetta kunni að valda og eru frekari upplýsingar boðaðar síðar.
Fjármálaeftirlitið tók í morgun yfir stjórn Landsbankans. Í gær kom fram í fréttum breskra fjölmiðla, að viðskiptavinir Icesave hefðu ekki komist inn á reikinga sína gegnum netið og gríðarlegt álag var á símsvörunarmiðstöð bankans frá áhyggjufullum viðskiptavinum, sem óttast um innistæður sínar.
Þá var sagt, að vefur Icesave hefði legið niðri vegna tæknilegra örðugleika.
Að sögn breska blaðsins Independent er talið að um 150 þúsund Bretar eigi peninga á reikningum Icesave og Kaupthing Edge, netbanka Kaupþings. Ekki hafa borist fréttir af vandræðum með síðarnefnda bankann.