Raungengið 50% undir sögulegu meðaltali

Svonefnt raungengi, sem er mælikvarði á samkeppnisstöðu gagnvart öðrum þjóðum, er tæplega 50% undir meðaltali síðustu 30 ára og lægsta gildi sem mælst hefur á því tímabili. Segir Greiningardeild Landsbankans ljóst, að gengi krónunnar sé nú langt frá því sem samrýmist jafnvægi.

Raungengið lækkaði um tæp 7% milli ágúst og september samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands og frá því á sama tíma í fyrra hefur raungengið lækkað um nær fjórðung og litlu minna frá áramótum.

Í ½5 fréttum Kaupþings segir, að þegar raungengið lækki fái útflytjendur hagstæðara verð fyrir vörur sínar og því megi eiga von á að verðmæti útflutnings aukist mikið á næstunni. Að sama skapi megi búast við að innflutningur aukist í krónum talið til skamms tíma en þegar neytendur og fyrirtæki lagi sig að hærra verði á innfluttum vörum megi búast við að innflutningur dragist saman.

Þessi þróun komi mjög skýrt fram í vöruskiptajöfnuði sem hafi verið að batna jafnt og þétt á árinu. Telur Greiningardeild Kaupþings, að þessi þróun muni halda áfram og afgangur verði af vöruskiptum strax á næsta ári.

Í Vegvísi Landsbankans segir að raungengið geti  færst nær jafnvægi með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með hækkun á nafngengi krónunnar og í öðru lagi með verðbólgu umfram verðbólgu í viðskiptalöndunum.

„Sú leið sem farin verði hafi úrslitaáhrif á efnahagsframvinduna á næstu misserum, þar með talið atvinnuástandsins, kaupmáttar og efnahagsreiknings heimila og fyrirtækja. Fyrir þjóðfélagið í heild er afar mikilvægt að leiðréttingin verði í gegn um styrkingu krónunnar, fremur en verðbólgu. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda munu leitast við að tryggja þá leið og er mikilvægt að slíkar aðgerðir komi sem fyrst," segir Landsbankinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK