Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, er ekki í neinum viðræðum um sölu eigna og enginn þrýstingur sé á félagið um slíka sölu. Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir Ásgeiri Friðgeirssyni, talsmanni Björgólfsfeðga. Finnskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að viðræður væru um að Novator myndi selja hlut sinn í finnska farsímafyrirtækinu Elisa. Hlutur Novators í félaginu er um 10%.
Neitar Ásgeir þessu í samtali við Reuters og segir að ástandið á íslenskum fjármálamarkaði hafi ekki áhrif á starfsemi Novators og ekki sé nein ástæða til neyðarsölu á eignum félagsins.
Meðal eigna Novator er hlutur í finnska íþróttavörufyrirtækinu Amber Sports en samkvæmt vef Amber nemur hlutur Novators 10,5%.