Forstjóri Baugs segir við breska blaðið Daily Telegraph, að fjármálakreppan á Íslandi hafi engin áhrif á starfsemi fyrirtækisins eða fjármögnun fyrirtækja Baugs á Bretlandseyjum. Að sögn blaðsins hefur orðrómur verið um það í dag að Baugur gæti lent í erfiðleikum.
Að sögn Telegraph fullyrtu sumir, að helstu stjórnendur Baugs hefðu setið á neyðarfundum síðustu þrjá daga vegna bankakreppunnar á Íslandi og einnig hafi borist fréttir af því, að bresk fyrirtæki, sem Baugur á hlut í, vilji endurskoða tengsl sín við fyrirtækið vegna þeirrar neikvæðu umræðu, sem er um Ísland þar í landi.
Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir hins vegar við Telegraph, að samskipti fyrirtækisins og fyrirtækja sem tengist Baugi, við banka séu traust. Samningum verði ekki breytt nema í samræmi við ákvæði lánasamninganna.
Gunnar segir að fyrirtæki í eigu Baugs, þar á meðal verslunarkeðjurnar House of Fraser og Hamleys, gangi vel og lausafjárstaða þeirra sé góð.