Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að stýrivextir Seðlabankans verði þegar lækkaðir verulega. Háir stýrivextir þjóna engum tilgangi miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu og eru til þess fallnir að auka enn á þann vanda sem heimili jafnt sem fyrirtæki standa frammi fyrir.
„Jafnframt beinir stjórnin þeim tilmælum til allra að standa sem fastast gegn verðhækkunum enda bitnar vaxandi verðbólga illa á heimilunum. Sá vandi sem heimilin standa gagnvart er það mikill að stjórnvöld, bæði ríkisvald og sveitafélög, auk seljenda vöru og þjónustu ber að standa gegn verðhækkunum og hagræða í rekstri sínum í stað þess að auka vandann með því að hækka verð," að því er segir á vef Neytendasamtakanna.