Nýi Landsbanki tekur við

Aðalstöðvar Landsbankans við Austurstræti.
Aðalstöðvar Landsbankans við Austurstræti.

Fjár­mála­eft­ir­litið ákvað á stjórn­ar­fundi í dag að Nýi Lands­banki Íslands hf. tæki yfir hluta af eign­um, rétt­ind­um og skyld­um Lands­bank­ans hf. og heyr­ir inn­lendi hluti af starf­semi bank­ans frá þeim tíma því und­ir nýtt fyr­ir­tæki og nýja stjórn. Elín Sig­fús­dótt­ir hef­ur tekið við starfi banka­stjóra en hún starfaði sem fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs Lands­bank­ans.

Fjár­mála­eft­ir­litið nýtti sér heim­ild á grund­velli laga sem sett voru á Alþingi á mánu­dag til þess að skipa skila­nefnd fyr­ir Lands­banka Íslands hf. og tók hún til starfa á þriðju­dag. Sama dag stofnaði rík­is­sjóður Íslands nýtt hluta­fé­lag, Nýja Lands­banka Íslands hf., sem nú hef­ur tekið við rekstri inn­lenda hluta Lands­bank­ans. 

Um er að ræða rekst­ur allra úti­búa á land­inu, út­lána­starf­semi og aðra hefðbundna banka­starf­semi. Áætlað er að heild­ar­fjöldi starfs­manna hins nýja banka verði í kring­um 1000 manns sem all­ir munu koma úr röðum nú­ver­andi starfs­manna Lands­bank­ans.

Fram­kvæmda­stjór­ar bank­ans eru Anna Bjarney Sig­urðardótt­ir á úti­búa­sviði, Árni Þór Þor­björns­son á fyr­ir­tækja­sviði, Jón Þor­steinn Odd­leifs­son á fjár­mála­sviði, Stefán Héðinn Stef­áns­son á eign­a­stýr­ing­ar­sviði,Guðmund­ur Guðmunds­son á rekstr­ar­sviði, Gunn­ar Viðar á lög­fræðisviði og Atli Atla­son á starfs­manna­sviði. Yfir áhættu­stýr­ingu bank­ans verður Þórir Örn Ing­ólfs­son.

Fram­kvæmda­stjórn bank­ans mun kynna nýtt skipu­rit og um­fang þeirr­ar starf­semi sem um ræðir við starfs­fólk bank­ans í dag og næstu daga.

Fjár­mála­eft­ir­litið seg­ir, að eng­in breyt­ing verði á hefðbundn­um viðskipt­um milli bank­ans og viðskipta­vina hans. Útibú bank­ans muni starfa óbreytt og eng­in breyt­ing verður á opn­un­ar­tíma þeirra. Þjón­usta við ein­stak­linga og fyr­ir­tæki verður sú sama og notk­un greiðslu­korta verður með hefðbundn­um hætti. Sömu inn- og út­láns­reikn­ing­ar verða í hinum nýja banka eins og áður var. Net­banki og hraðbank­ar starfa í óbreyttri mynd.

Elín Sig­fús­dótt­ir, nýráðinn banka­stjóri er viðskipta­fræðing­ur að mennt. Hún starfaði hjá Búnaðarbanka Íslands í rúma tvo ára­tugi og var síðast   fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs og sat í bankaráði bank­ans. Hún var ráðin  til Lands­bank­ans árið 2003 sem fram­kvæmda­stjóri  fyr­ir­tækja­sviðs.

Elín Sigfúsdóttir.
Elín Sig­fús­dótt­ir.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK