Elín Sigfúsdóttir hefur verið ráðin bankastjóri nýs Landsbanka Íslands hf. og er hún fyrst kvenna til þess að stýra íslenskum viðskiptabanka. Það má því segja að orð innherja viðskiptablaðs Morgunblaðsins frá því í febrúar 2003 séu að rætast en þar var fjallað um ráðningu Elínar í stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Búnaðarbankans.
Elín Sigfúsdóttir er fædd þann 24. ágúst 1955. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1974 og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1979. Hún hóf störf hjá Búnaðarbanka Íslands sama ár.
Elín var ráðin í hagdeild Búnaðarbankans í febrúar 1979. Hún tók við starfi í endurskoðunardeild bankans í júní 1985 og var síðan ráðin forstöðumaður hagdeildar í mars 1994. Hún gegndi því starfi þar til hún tók við starfi forstöðumanns á fyrirtækjasviði, var síðar gerð að aðstoðarframkvæmdastjóra þess sviðs og í febrúar 2003 tók hún við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasvið. Þegar Elín settist í framkvæmdastjórn Búnaðarbankans í febrúar 2003 var hún fyrsta konan sem settist í framkvæmdastjórn bankans.
Hún var kjörin í bankaráð Búnaðarbankans árið 1999 og sat í bankaráði bankans um fjögurra ára skeið. Fyrst sem fulltrúi starfsmanna en þegar bankinn var keyptur af S-hópnum svonefnda árið 2003 var hún kjörin í bankaráðið fyrir hönd nýrra eigenda.
En hlutirnir gerðust hratt í íslenskum bankaheimi árið 2003 því í apríl sagði Elín upp starfi sínu hjá Búnaðarbankanum og réð sig til Landsbanka Íslands á sama tíma og margir yfirmenn Búnaðarbankans fluttu sig um set við Aðalstrætið og hófu störf hjá Landsbankanum. Meðal þeirra var Sigurjón Þ. Árnason, sem áður starfaði sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Búnaðarbankans. Sigurjón settist í sæti bankastjóra Landsbankans við hlið Halldórs J. Kristjánssonar en þeir störfuðu sem bankastjórar Landsbankans þar til í dag er Elín tók við starfi þeirra. Þegar Elín réð sig til Landsbankans tók hún við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs og gegndi því starfi þar til í dag er hún tók við bankastjórastarfinu.
Lokaorð innherja í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 13. febrúar 2003 þar sem fjallað var um Elínu og að hún væri fyrsta konan í framkvæmdastjórn Búnaðarbankans eru eftirfarandi: „Hlutirnir eru að breytast en ómögulegt er að segja til um hversu langt er að bíða þess að kona verði bankastjóri hér á landi."