„Staðan er vissulega erfið og óljós. Því miður virðist traust á Íslandi vera horfið, nánast hvar sem er í heiminum.“ Þetta segir Lýður Guðmundsson, starfandi stjórnarformaður Exista.
Hann segir að eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Kaupþings fyrr í vikunni sé verið að vinna úr málum Exista, eins og frekast sé unnt. Eignir hafi verið seldar, fyrst hlutur félagsins í norræna tryggingafélaginu Sampo síðastliðinn mánudag, þá hafi hlutur félagsins í norska tryggingafélaginu Storebrand verið seldur á þriðjudag og loks allur eignarhlutur Exista í Bakkavör í gær, samtals 39,65% hlutur.
„Staða Exista er óljós eins og sakir standa og sú staða skapar óvissu fyrir Bakkavör og aðra hluthafa þess, sem meðal annars eru lífeyrissjóðir. Neikvæð umfjöllun um Ísland í breskum fjölmiðlum getur einnig valdið óróa í rekstri Bakkavarar þar í landi. Rekstrarlega stendur fyrirtækið hins vegar mjög vel.“
Aðrar helstu eignir Exista eru m.a. Lýsing, VÍS og Síminn. Að sögn Lýðs eru þessi fyrirtæki eins og Bakkavör öll í góðum rekstri og segir hann að þau standi mjög vel fyrir sínu.
Exista átti 24,7% hlut í Kaupþingi. Miðað við lokaverð bankans á síðasta viðskiptadegi, 3. október síðastliðinn, var markaðsvirði Kaupþings um 484 milljarðar króna. Því tapaði Exista hlutabréfum að verðmæti um 120 milljarðar króna við það að Fjármálaeftirlitið yfirtók stjórn Kaupþings, miðað við gengi hlutabréfanna í byrjun þessa mánaðar.
Um horfurnar framundan segir Lýður að barátta Exista snúist fyrst og fremst um það að bjarga verðmætum. „Gríðarleg verðmæti hafa gufað upp með þroti bankanna, en við ætlum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að meiri verðmæti hverfi úr landi,“ segir Lýður.