Áætlaður hagnaður Össurar hf. á þriðja ársfjórðungi er 12 milljónir Bandaríkjadala eða 1,3 milljarða króna, 480% meiri en á sama tímabili á síðasta ári. Sölutekjur eru áætlaðar 87 milljónir Bandaríkjadala sem er 6% aukning frá sama tímabili í fyrra.
Fram kemur í tilkynningu frá Össuri, að á stjórnarfundi, sem fór fram í gær, hafi verið ákveðið að birta áætlaðar rekstrarniðurstöður fyrir þriðja ársfjórðung. Þetta sé gert vegna mjög óvenjulegra aðstæðna á fjármálamörkuðum og til þess að innherjar geti átt viðskipti. Unnið sé að gerð uppgjörs félagsins fyrir þriðja ársfjórðung.
Áætlaðar niðurstöður miðast við rauntölur fyrir júlí og ágúst og áætlun fyrir september.