Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur
Vegna misræmis á skráðu gengi og raungengi, miðað við erlenda mynt, eru rekstrarfélögin í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar vænlegur fjárfestingarkostur fyrir útlendinga.
Alfesca, Marel og Össur hafa lækkað hlutfallslega minna en hin félögin í úrvalsvísitölunni frá áramótum. Félögin afla nær allra tekna í erlendri mynt en viðskipti með bréf þeirra fara fram í íslenskum krónum.
Í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis í gær segir að þar sem gengi krónunnar hafi lækkað mikið undanfarið sé ljóst að gengi þessara félaga, mælt í erlendri mynt, hafi lækkað umtalsvert. Því telji greiningardeildin að kauptækifæri sé í þessum félögum sé horft fram á veginn.
Til að útskýra þetta betur má líta á gengi Marels. Greiningardeild Glitnis verðmat félagið á 63,1 milljarð króna nýlega. Miðað við það er gengi hlutabréfa um það bil 110. Miðað við gengið sem Seðlabankinn festi fyrr í vikunni, 131 króna gagnvart evru, hækkar gengi Marels í 120 krónur á hlut. Ef miðað er við enn hærra gengi evru, 150 krónur, hækkar gengi Marels í 138. Eins og sjá má í töflunni er síðasta skráða gengi félagsins 71,7. Af þessu má álykta að skráð gengi sé í raun langt undir raungengi og eru rekstrarfélögin því vænlegur fjárfestingarkostur fyrir erlenda aðila um þessar mundir. Slíkum viðskiptum fylgir þó mikil áhætta og mælir greining með að erlend hlutafjárskráning verði framkvæmd sem allra fyrst því það greiði leið erlendra fjárfesta að innlenda hlutabréfamarkaðnum.