Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson Ómar Óskarsson

Jón Ásgeir Jóhannesson segist ekki fá neitt út úr sölunni á Baugi í Bretlandi til breska kaupsýslumannsins Philip Green. Það er ef viðskiptaráðherra samþykkir að Green fái að kaupa skuldir fyrirtækja Baugs í Bretlandi en stór hluti þeirra eru í bönkum sem bresk stjórnvöld hafa fryst.  Maðurinn sem á lánin á félagið. Hann á í raun félagið í dag það er bara þannig, sagði Jón Ásgeir í Silfri Egils í dag.

Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, segir að Philip Green, hafi hringt í Baug á fimmtudag eftir að í ljós var komið hver staðan væri hvað varðar íslensku bankana og spurði hvort Baugur væri reiðubúinn til þess að selja fyrirtæki sín í Bretlandi. 

Jón Ásgeir segir að mörg fyrirtækja Baugs í Bretlandi hafi strax lent í vandræðum eftir að íslensku bankarnir fóru á hausinn þar sem þau voru með sín bankaviðskipti hjá þeim.

Jón Ásgeir sagði að þau hjá Baugi hefðu tjáð Green að þau vissu hreinlega ekki hvernig færi með þessi félög en þau séu í stórri hættu um að fara öll á hausinn hvert af öðru.

Egill sagði við Jón Ásgeir að hann væri einungis að bjarga sjálfum sér ekki íslensku þjóðinni. Það bjargi ekki íslensku þjóðinni að setja þetta í hendurnar á erlendum manni. Þetta séu peningarnir sem gætu hugsanlega komið upp í að borga upp Icesave sem Egill segist hafa heimildir að hafa farið að stórum hluta inn í Baug. 

Jón Ásgeir segir að það sem sé að gerast eftir kúvendingu í bankakerfinu þá sé verið að selja erlendar eignir og tapa stórum upphæðum. Þessi fyrirtæki séu í erfiðri stöðu vegna þeirrar milliríkjadeilu sem hafi komið upp á milli Íslands og Bretlands en mörg fyrirtækja Baugs séu í viðskiptum við Icesave og hafi einnig tryggt vörur hjá Baugi. Hann segir að það sé verið að reyna að koma þessum eignum nú í verð.

Egill sagði Jón Ásgeir vera að láta íslenska ríkið skera sig niður úr snörunni en Jón Ásgeir það ekki rétt. Það sem sé að gerast er það að mikil verðmæti eru í hættu. Þetta er náttúrulega staða sem enginn hafi reiknað með. Þú værir í vandræðum þar sem bankinn sem þú átt viðskipti við er farinn á hausinn. Þetta var einfaldlega ekki í kortunum.

Er að reyna að bjarga starfsfólki í Bretlandi

Aðspurður segist Jón Ásgeir ekki fá neina þóknun fyrir söluna til Green heldur sé hann fyrst og fremst að reyna að bjarga 55 þúsund manns sem starfa hjá fyrirtækjum Baugs í Bretlandi. Það sé mikilvægt að vernda þau störf sem eru hjá Baugi á Íslandi. Hann segir að það verði að koma í ljós hvort Baugur muni selja eignir sínar á Íslandi. Hann neitar því að hafa komið peningum undan á leynireikninga líkt og Egill ýjaði að í þættinum í dag. Heldur eigi hann allt undir Baugi.

Jón Ásgeir neitaði því að vogunarsjóðir standi á bak við Philip Green heldur sé hann fær um kaupin sjálfur.

Egill áætlaði að skuldir Baugs næmu 300 milljarða króna hjá íslensku bönkunum og ofan á það bætist gjaldþrot Stoða sem honum skiljist að nemi 260 milljörðum króna. Hann spurði Jón Ásgeir hvernig þetta sé hægt og hvernig þeir hafi getað fengið svona mikla peninga út úr bankakerfinu sem var að hluta til í þeirra eigu.

Ef þau fara á brunaútsölu þá eru þau einskins virði

Jón Ásgeir að það megi ekki horfa fram hjá því að það hafi oft á tíðum verið að kaupa mjög góðar eignir sem eru enn góð fyrirtæki. „En ef þau fara á brunaútsölu þá eru þau einskins virði," sagði Jón Ásgeir. Ef eign er tekin af þér sem er upp á 80 milljarða þá er hún einskins virði. Það er náttúrulega það sem hefur gerst. Þessi fyrirtæki voru í skilum með sín lán, segir Jón Ásgeir. Jón Ásgeir segir að fyrirtæki Baugs hafi staðið við skuldbindingar sínar og að engan hafi órað fyrir því að svona færi.

Hann segir að þær aðgerðir sem farið var í gegn þeim og olli því að Stoðir þurftu að fara í greiðslustöðvun þegar Glitnir var tekinn af þeim hafi valdið ákveðinni keðjuverkun. Glitnir hafi ekki verið gjaldþrota og það sé í raun fjarri lagi að halda slíku fram.  

Hvernig ætlar þú að lifa lífinu Jón Ásgeir spurði Egill í þættinum. Jón Ásgeir segir að ekki sé hægt að kenna þröngum hópi manna um heimskreppuna og þeim hafi aldrei órað fyrir því að svona færi. Þessir menn hafi keypt góð fyrirtæki og þeir hafi staðið við sínar skuldbindingar.

Egill spurði Jón Ásgeir um hvað hann ætli sér að gera, selja eignir sínar og fara að vinna í Bónus. Jón Ásgeir segir ekkert að því að fara vinna venjulegt starf og það jafnvel í Bónus. Það sé alveg ljóst að allir þurfi að hjálpast að við uppbygginguna en hann muni ekki láta það gerast að gefa eigur sínar í burtu. Þá spurði Egill hvort það væri ekki það sem þeir væru að gera með því að selja Green og svaraði Jón Ásgeir: „hvað annað er í boði".

Egill tók fram í upphafi viðtalsins við Jón Ásgeir að hann hefði boðið fleiri að mæta til leiks, þar á meðal Bjarna Ármannssyni, Hannesi Smárasyni, Björgólfsfeðgum og Lýði Guðmundssyni en enginn þeirra hafi séð sér fært að mæta í viðtal nema Jón Ásgeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka