Breskir fjölmiðlar segja í dag, að Malcolm Walker, stofnandi og framkvæmdastjóri verslunarkeðjunnar Iceland, hafi ekki lengur áhuga á að reyna að kaupa verslunarkeðjuna Woolworths en íhugi nú hvort hann eigi að reyna að fá keyptan hluta af Iceland. Fyrirtækið er í eigu Baugs og félaga tengdum Baugi.
Walker, í samvinnu við fleiri fjárfesta, þar á meðal Baug, lagði í ágúst fram óformlegt tilboð um að kaupa allar smásöluverslanir Woolworths, 815 talsins fyrir 50 milljarða punda. Þessu tilboði var hafnað en stjórn Woolworths opnaði fyrir samningaviðræður.
Blaðið Independent on Sunday segir í dag að Walker muni hafa dregið tilboðið til baka en hafi þó ekki útilokað að kaupa einhverjar af verslunum Woolworths fari fyrirstækið í greiðslustöðvun.
Þess í stað íhugi Walker nú að kaupa sig inn í Iceland í ljósi erfiðrar stöðu Baugs í Bretlandi.
Walker skrifaði í síðustu viku birgjum Iceland bréf til að fullvissa þá um, að efnahagskreppan á Íslandi hafi engin áhrif á rekstur Iceland. Að sögn Independent sagði Walker í bréfinu, að Iceland ætti 180 milljóir punda í reiðufé á reikningum í nokkrum breskum bönkum.