Billjón evra björgunaraðgerðir

Ríkisstjórnir í Evrópuríkjum boðuðu í dag björgunaraðgerðir vegna fjármálakreppunnar, sem samtals gera ráð fyrir að yfir 1 billjón evra (1000 milljónir) verði notuð til að koma í veg fyrir hrun evrópska bankakerfisins. Hlutabréf hafa hækkað mikið í kauphöllum Evrópu í dag.

Leiðtogar aðildarríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópu, sem nota evru sem gjaldmiðil, samþykktu í gær í París að vinna sameiginlega að björgunaraðgerðum fyrir fjármálakerfið. Engin upphæð var nefnd, en aðgerðir, sem Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Portúgalar hafa boðað í dag gætu kostað yfir 900 milljarða evra.

Ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, áformar að leggja fyrir þýska þingið frumvarp um að lausafé á markaði verði aukið um 80 milljarða evra lánaábyrgðir verði auknar um 400 milljörðum evra.

José Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans myndi ábyrgjast allt að 100 milljarða evra í millibankalánum og Portúgalstjórn hefur þegar boðið fram lánaábyrgðir sem nema 20 milljörðum evra.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, tilkynnti eftir ríkisstjórnarfund í dag, að franska ríkið muni verja allt að 40 milljörðum evra til að endurfjármagna franska banka og tryggja millibankalán allt að 320 milljörðum evra.

Bretland er ekki aðili að evrusvæðinu en ríkisstjórn Gordons Browns tilkynnti í morgun, að breska ríkið mun fjárfesta 37 milljarða punda í þremur af stærstu bönkum  Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK