Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar, segir að gott verð hafi fengist fyrir hlutinn í Elisa og félagið tapi ekki á sölunni. Ekki hafi verið um neyðarsölu að ræða en salan sé liður í að bregðast við sérstaklega erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum.
Novator seldi allan hlut sinn í finnska farsímafélaginu Elisu í nótt. Alls var um 10,4% hlut að ræða og er kaupandinn lífeyrissjóðurinn Varma sem keypti hlutinn á 11,20 evrur á hlut og söluverðið því tæpar 194 milljónir evra.
Að sögn Ásgeirs stendur ekki til að selja frekari hluti Novators í öðrum félögum eins og staðan er núna en hlutirnir breytist fljótt eins og staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og því ekki hægt að útiloka neitt.
Hann segir að staðan sé gríðarlega erfið fyrir íslensk félög nú þar sem bankar loki fyrir lánalínur til félaga sem tengjast íslenskum fjárfestum. Þetta bitni oft á félögum sem ekki eru í neinni starfsemi á Íslandi.
Í ljósi þessa hafi Novator ákveðið að selja hlut sinn í Elisa þrátt fyrir að símafyrirtækið sé ekki með neina starfsemi á Íslandi.