Bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir að rannsaka viðskiptaferla og efnahagsumsvif. Krugman, sem er 55 ára, hefur sett fram nýja kenningu um áhrif fríverslunar og heimsvæðingar og einnig um hvað er drifkrafturinn á bak við borgarmyndun í heiminum.
Krugman er þekktur fyrir skrif sín í bandaríska dagblaðið The New York Times og fjallaði meðal annars um Íslandi í dálki sínum þann 1. apríl sl. og veltir fyrir sér hvort Ísland sé fórnarlamb fjármálasamsæris. „Slíkt gerist í raun og veru," segir Krugman og vísar til þess þegar nokkrir vogunarsjóðir reyndu að gera atlögu að Hong Kong á árunum 1997-1998.
Krugman vitnar í fréttir af ummælum Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, á ársfundi bankans í lok mars um að atlagan, sem gerð hefði verið að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu lykti óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.