Hlutabréf réttu úr kútnum undir lok viðskiptadags á Wall Street í kvöld. Dow Jones hlutabréfavísitalan hækkaði um 11,08%, 936 stig sem er mesta hækkun í stigum frá upphafi og mesta hækkun í prósentum frá árinu 1933. Er vísitalan nú 9387 stig. Gengi bréfa deCODE hækkaði um 47,19% og er tæp 53 sent.
Hlutabréf hafa hækkað mikið um allan heim í kjölfar þess að ríkistjórnir í Evrópu náðu samkomulagi um aðgerðir til að berjast gegn fjármálakreppunni.
Nasdaq hlutabréfavísitalan hækkaði um 11,81% og er 1844 stig og Standard & Poor's hækkaði um 11,58% og er 1003 stig.
Olíuverð hækkaði einnig á heimsmarkaði í dag þar sem fjárfestar vona að björgunaraðgerðir, sem ákveðnar voru um helgina, muni forða heiminum frá löngu samdráttarskeiði. Verð á olíutunnu hækkaði um 3,49 dali í New York í dag og var lokaverðið 81,19 dalir. Í Lundúnum hækkaði tunna af Brent Norðursjávarolíu um 3,37 dali og er 77,46 dalir.