Stefnt að niðurstöðu lífeyrissjóða á morgun

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, útilokar ekki að  framkvæmanlegt sé að lífeyrissjóðir kaupi  eignir og rekstur Kaupþings.

„Ég get staðfest að þeir kynntu hugmyndir um þetta, en ég hef ekki séð útfærðari hugmynd um þetta. Þeir eiga gríðarlega mikið undir í Kaupþingi, en voru þarna að segja frá frumhugmyndum um þetta. Síðan hef ég ekki fylgst með framvindunni," segir Björgvin og bætir við að málið sé í höndum Fjármálaeftirlitsins.

Björgvin segir nokkra ráðherra hafa fundað með fulltrúum lífeyrissjóða út af öðrum málum, en þá hafi þetta borið á góma. Hann útilokar ekki að slík kaup yrðu framkvæmanleg, en segist ekki vita hversu erfitt eða auðvelt væri að útfæra það.

Stjórnir lífeyrissjóða, sem áttu umtalsverðan hlut í Kaupþingi, munu halda fundi í kvöld og fyrramálið. Að sögn Þorgeirs Eyjólfssonar, forstjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, er stefnt að því að fyrir liggi um hádegisbil á morgun hvort þeir sendi sameiginlega formlegt erindi til stjórnvalda þar sem sem óskað verði eftir viðræðum um kaup á eignum og rekstri Kaupþings. 

Auk Lífeyrissjóðs verzlunarmanna koma Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir að málinu. Samkvæmt hugmyndum lífeyrissjóðanna myndu þeir aðallega kaupa innlendan rekstur Kaupþings en einnig hugsanlega hluta af erlendu starfseminni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK