Tímar ofurlaunanna liðnir?

Vegfarandi gengur fram hjá banka í City í Lundúnum.
Vegfarandi gengur fram hjá banka í City í Lundúnum. Reuters

Á meðan þjóðarleiðtogar deila um leiðir til að koma í veg fyrir fjármálahrun virðast breskir stjórnmálamenn og fréttaskýrendur þó sammála um eitt: Tími risabónusa fyrir starfsmenn banka og fjármálafyrirtækja er liðinn – að minnsta kosti í bili.

Jafnvel fyrrverandi innanbúðarmaður í City, eins og fjármálahverfið í Lundúnum er jafnan nefnt, er sammála þeirri skoðun, að ofurlaunin og bónusar hvetji til áhættusækni sem hafi leitt þá fjármálakreppu, sem nú ríkir, yfir heiminn.

„Ég seldi djöflinum sálu mína þegar ég vann í City og ég fékk afar gott verð fyrir hana,” segir  Geraint Anderson, fyrrverandi starfsmaður greiningardeildar fjárfestingarbanka og nú dálkahöfundur ókeypis síðdegisblaðs í Lundúnum.

Hann segist hafa orðið stöðugt gráðugri og uppteknari af peningum en á endanum hafi hann gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að losna út úr þessu umhverfi. Það tókst honum fyrr á þessu ári þegar hann sendi frá sér bók þar sem hann fjallaði opinskátt um fíkniefna- og áfengismenningu ofurlaunasamfélagsins.

Anderson segir, að upphæð bónusgreiðslnanna hafi ekki verið helsta vandamálið þótt auðvitað geti það hvatt til þess að reglur séu bognar eða brotnar. Það skaðlegasta hafi verið uppbygging bónusanna og það, að stór hluti þeirra var greiddur út í reiðufé.  

„Maður fær bónusinn greiddan á einu bretti, að stærstum hluta í peningum, og þess vegna er manni slétt sama um langtímaáhrif þess sem maður gerir. Við þurfum launakerfi, sem hvetur til þess að hugsað sé fram í tímann. Ef bankar um allan heim greiða starfsmönnum bónusa, sem byggja á frammistöðu á 3-4 árum er líklegra að menn taki langtímaáhrifin til skoðunar.”

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, virðist sammála þessu en á áratugarlangri fjármálaráðherratíð hans var mikill efnahagsuppgangur  knúinn áfram af peningafljótinu sem rann gegnum City.

„Ég tel að við verðum að rannsaka hvar menn hafa hagað sér með óábyrgum hætti og ég hef lengi sagt að það þurfi að betrumbæta kerfið. Við verðum að hreinsa til í fjármálakerfinu,” sagði Brown í síðustu viku.

Leiðtogar bæði Íhaldsflokksins og Frjálslynda demókrataflokksins, stærstu stjórnarandstöðuflokka landsins, hafa hvatt til þess að bannað verði að greiða yfirmönnum banka, sem fá opinbera aðstoð, ofurlaun og bónusa.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK