VTB, annar stærsti bankinn í Rússlandi, mun óska eftir aðstoð rússneska ríkisins við að endurfjármagna erlend lán sín á þessu og næsta ári. Á móti ætlar bankinn að skera niður rekstrarkostnað um 15-20% til loka ársins.
Blaðið Moscow Times segir, að féð muni koma úr 50 milljarða dala sjóði, sem rússneska ríkið hafi sett á stofn til að aðstoða fjármálastofnanir í fjármálakreppunni en fénu á fyrst og fremst að verja til að greiða erlendar skuldir banka.
Haft er eftir Andrei Kostin, forstjóra VTB, að bankinn þurfi að endurgreiða 9 milljarða evra í erlendum lánum á næsta ári og 2,4 milljarða evra það sem af er þessu ári.