Landsbankinn: Engar reglur voru brotnar

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans.

Landsbanki Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem  fjallað er um alþjóðleg innlán bankans. Segir bankinn, að engar reglur hafi verið brotnar í því ferli og náið samráð haft við Fjármálaeftirlitið um viðræður við erlend eftirlit, ekki síst frá miðju sumri 2008.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Snemma árs 2006 beindist kastljós erlendra fjölmiðla og markaðsaðila að íslenskum efnahagsmálum og íslenska bankakerfinu. Viðbrögð Landsbankans við þeim aðstæðum voru í samræmi við ábendingar frá erlendum greiningaraðilum og bankastofnunum.
 
Aðgerðir fólust meðal annars í því að minnka markaðsáhættu sem hlutfall af efnahagsreikningi; eignatengsl voru einfölduð og skýrð; upplýsingagjöf var stórbætt; og ekki síst var stoðum fjölgað í fjármögnun bankans með áherslu á alþjóðlega innlánastarfsemi.
 
Landsbankinn hafði í sögulegu samhengi alltaf haft hátt hlutfall innlána sem lækkaði þó lítillega á mesta vaxtarskeiði bankans. Icesave innlánareikningurinn, ásamt annarri innlánastarfsemi var mikilvægur þáttur í að draga úr vægi markaðsfjármögnunar sem hluta af heildarfjármögnun bankans.

Sögulega hátt hlutfall innlána hjá Landsbankanum 

  1. Hollenski bankinn ING Direct hafði verið leiðandi á breska innlánamarkaðinum með netreikninga sína og var þaðan komin fyrirmyndin að Icesave. Stofnun Icesave, innlánareiknings á netinu, í Bretlandi í október 2006 var mikilvægt skref til að breyta samsetningu fjármögnunar Landsbankans.
  2. Innlán með þessum hætti, voru hagstæðasta fjármögnunarleið fyrir íslenskan banka á þeim tíma er skuldatrygginarálag var hátt og aðgengi að erlendu lánsfé takmarkað. 
  3. Þegar Icesave var ýtt úr vör hafði bankastofnun ekki orðið fyrir áhlaupi í hinum vestræni heimi síðan 1929 og öll umræða um tryggingarsjóði eftir því.
  4. Á grundvelli laga um Evrópska efnahagssvæðið, gerðist Landsbankinn aðili að breska tryggingarsjóðnum árið 2006. Þar sem Icesave innlánum var safnað í gegnum útibú bankans en ekki dótturfyrirtæki voru innistæður tryggðar allt að 35.000 pund eftir svokölluðu „passport system", þ.e. fyrstu 20.887 evrurnar falla undir íslenska tryggingarsjóðinn (eða sem jafngildir ca. 16.000 pundum) og það sem eftir stendur upp að 35.000 pundum fellur undir breska tryggingarstjóðinn (nú 50,000 pund).

    Lausafjárþrengingar í kjölfar undirmálslána í Bandaríkjunum

  5. Sumarið 2007 lokuðust fjármögnunarmarkaðir nánast alveg eftir að stórfelld töp vegna svokallaðra undirmálslána og tengdra fjármálagjörninga  í Bandaríkjunum skapaði vantraust milli bankastofnanna og hefti verulega allt flæði fjármagns.  Vel ber að merkja að Landsbankinn hafði ekki fjárfest að neinu leiti í þessum flóknu fjármálagjörningum.
  6. Bankastofnanir horfðu nú í auknum mæli til innlána sem stöðugri fjármögnunarleið og bjó Landsbankinn vel að þeim ákveðnu skrefum í töku heildsölu – og smásöluinnlána á erlendum vettvangi, þ.m.t. stofnun Icesave árið 2006. Söfnun innlána á ýmsum mörkuðum var því orðin helsta fjármögnunarleið banka á meðan alþjóðlegir lánsfjármarkaðir væru nánast lokaðir.
  7. Allir markaðsaðilar voru á einu máli um að það viðskiptamódel sem Landsbankinn hafði markað sér, með 63% útlána fjármögnuð með innlánum, væri það módel sem myndi best standa af sér núverandi umbrotatíma og væri því rétt stefnumótun.

    Ábyrg skref vegna góðs árangurs Icesave

  8. Eins og fram hefur komið var árangur Icesave í Bretlandi framar vonum og um helmingur þess í bundnum innlánum. Af þeim sökum sótti Landsbankinn sjálfur eftir viðræðum við bresk yfirvöld um tilfærslur í breskt dótturfyrirtæki fyrr á þessu ári.
  9. Þau innlán sem safnað var í Bretlandi voru nýtt til fjármögnunar samstæðunnar í heild, m.a. til fjármögnunar lánastarfsemi í Bretlandi og dótturfélaga víða um Evrópu, auk verkefna á vegum íslenskra fyrirtækja hér heima og erlendis sem kröfðust fjármögnunar í erlendri mynt. Þetta er algengt í fjárstýringu allra alþjóðlegra banka.

    Þjóðnýting Glitnis þungur róður fyrir íslenskt fjármálalíf

  10. Þegar Glitnir var þjóðnýttur þann 29. september fór af stað atburðarrás sem markar djúp spor í sögu fjármálageirans á Íslandi. Lánshæfismatsfyrirtæki lækkuðu einkunnir sínar á öllum íslensku bönkunum, lánalínur voru dregnar til baka, krónan féll og erlendir aðilar hófu að selja frá sér íslenskar eignir þótt stöndugar væru. Fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi og erlendis náði nýjum hæðum.
  11. Í kjölfarið voru gerðar ríkari kröfur til Landsbankans m.a. á veð í endurhverfum viðskiptum. Er það var ljóst, sóttist Landsbankinn sjálfur eftir því að falla undir nýsamþykktan lagaramma um aðgerðir fjármálaeftirlits vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum.

    Fullt samráð við eftirlitsaðila á Íslandi, Bretlandi og Hollandi

  12. Af hálfu Landsbankans er mikilvægt að taka fram að Landsbankinn hóf undirbúning að yfirfærslu Icesave reikninga í dótturfélag bæði í Bretlandi og Hollandi fyrr á þessu ári.
  13. Landsbankinn hóf viðræður við breska fjármálaeftirlitið (FSA) í mars á þessu ári um lausafjárstýringu í útibúi Landsbankans í London. Þeim viðræðum lauk með samkomulagi sem gert var 29. maí og fól í sér að ekki aðeins London útibúið tæki upp lausafjárstýringu eftir breskum reglum heldur yrði þeim reglum beitt á samstæðu Landsbankans í heild sinni.
  14. FSA tók síðan málið upp að nýju þann 2. júlí og var þess þá óskað af þeirra hálfu að Landsbankinn hæfi vinnu sem miðaði að því að koma starfsemi sem tengdist Icesave í Bretlandi í sérstakt dótturfélag. Landsbankinn hafði náið samráð við FME um afstöðu til óska FSA svo sem eðlilegt er. Landsbankinn lýsti vilja sínum til að skoða þá leið enda hafði Landsbankinn fyrr kynnt FSA hugmyndir þar að lútandi að eigin frumkvæði. Ljóst er að slík yfirfærsla skuldbindinga gagnvart innstæðueigendum sem hér um ræðir er mjög flókin í framkvæmd.
  15. Af hálfu Landsbankans var óskað eftir sveigjanleika af hálfu FSA til að unnt yrði að framkvæma yfirfærsluna í nokkrum skrefum en ekki var fallist á nægilegan sveigjanleika af hálfu FSA þrátt fyrir heimildir í þeirra reglum til að veita undanþágur frá reglum sem að þessu lúta.
  16. Að lokum lagði Landsbankinn til svokallaða flýtimeðferð (e. fast track) um að tilfærsla í dótturfyrirtæki gæti átt sér stað strax. Sú vinna stóð enn yfir þegar þeir atburðir urðu sem leiddu til þess að stjórn Landsbankans óskaði eftir atbeina Fjármálaeftirlitsins þann 7. október s.l. Landsbankinn fór eftir þeim fyrirmælum sem fram komu frá eftirlitsaðilum á Íslandi sem erlendis varðandi lausafjárstýringu bankans og sendi reglulegar skýrslur um stöðu bankans.
     
    Landsbankinn vill því ítreka að engar reglur voru brotnar í þessu ferli og haft var náið samráð við Fjármálaeftirlitið (FME) um viðræður við erlend eftirlit, ekki síst frá miðju sumri 2008."
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka