Aukinn þrýstingur er um að rannsókn fari fram á starfsemi lánshæfismatsfyrirtækjanna þriggja, Moody's, Standard & Poor's og Fitch, sem eru sökuð um að hafa ekki gert sér grein fyrir þeim vanda sem blasti við íslensku bönkunum sem og fleirum í tengslum við undirmálslánakrísuna í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vef Evening Standard.
Þar kemur fram að bresk sveitarfélög, sem talið er að eigi yfir einn milljarð punda af skattfé almennings læst inni í íslensku bönkunum þremur sem eru nú í umsjón íslenskra stjórnvalda, ásaki nú matsfyrirtækin um að hafa skrifað upp á stjarnfræðilega háar lánshæfismatseinkunnir og að þau hafi ekki lækkað mat sitt á íslensku bönkunum fyrr en fyrir nokkrum vikum áður en kreppan skall á af fullum þunga.
Í fréttinni er vísað til þess að fjárlaganefnd breska þingsins (Treasury Select Committee) hafi komist að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að undirmálslánakrísan í Bandaríkjunum og áhrif hennar annars staðar hafi sýnt fram á hversu berskjölduð matsfyrirtækin væru og hvernig þau hegðuðu sér enda fengju þau greitt fyrir vinnu sína af þeim stofnunum sem þau lögðu mat á.
Michael Fallon, varaformaður nefndarinnar segir að það verði að koma til kasta Evrópusambandsins að semja reglur um starfshætti matsfyrirtækjanna.
Matsfyrirtækin þrjú: Fitch, Moody's og Standard & Poor's, segja hins vegar að þau hafi reynt að vara við stöðu íslensku bankanna svo mánuðum skiptir.