Forsvarsmenn fimm lífeyrissjóða munu í hádeginu senda Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem óskað er eftir formlegum viðræðum um á kaup á eignum og rekstri Kaupþing. Um er að ræða Lífeyrissjóð verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Sameinaða lífeyrissjóðinn og Stafi.
Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sagði í gær að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna telji að mikil verðmæti og þekking séu fólgin í Kaupþingi. Þeir sjái í þessum viðskiptum möguleika til ávinnings sem kæmi sjóðfélögum lífeyrissjóðanna til góða.
Ekki er gert ráð fyrir því nú að lífeyrissjóðirnir eigi meira en 51% aðild í kaupunum og að fyrst og fremst sé um að ræða innlenda hlutann bankans.