Í dálkinum kunna, Lex, í fjármálablaðinu The Financial Times, er í dag fjallað um vanda Íslendinga og möguleika til að standa við skuldbindingar sínar. Yfirskriftin er Greitt úr klandri Íslands og er lýsingin vægast sagt nöturleg.
Lex segir Ísland bjóða upp á eins tímabæra skilgreiningu á gjaldþroti og í boði sé. Landið eigi sem stendur nægan gjaldeyrisforða til að standa undir 9 mánaða innflutningi. Að svo búnu bíði löng röð lánadrottna, þar á meðal innlánseigendur án trygginga á borð við 108 breskar bæjar- og sveitarstjórnir, lögregluyfirvöld í London og stærsta kattavinafélag Bretlandseyja. Sumir, en ekki allir, muni fá peningana sína aftur. Það hljómi kaldranalega en þannig eigi það að vera.
Efnahagsreikningur Íslands sé álíka hrjóstugur og landslagið. Stærsta vandamálið sé hróplegt bilið milli verðmætis erlendra eigna (aðallega útlána) hinna þjóðnýttu banka landsins og skuldbindinga erlendis (innlán og lántökur á gjalddaga innan árs), en Lex segir að hagfræðingurinn Willem Buiter (höfundur „stungið undir stól“-skýrslu Landsbankans) meti þetta bil á um 10 milljarða dala, liðlega þúsund milljarða króna - þ.e. ein billjón króna.
Lex segir að sé gengið út frá að fyrir eignirnar (sem margar hverjar hafi tryggingu í því að þær sé að finna í helstu verslunargötum á Bretlandi) fáist meira en brunaútsöluverð, hafi landið úr að spila um 4 milljörðum dala í gjaldeyrisvarasjóði til að fylla upp í gatið. Ísland geti hugsanlega aflað annars milljarðs dala með láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sé fimmfaldur landskvóti. Það sem á vantar verði að fást með því að setja framtíðarorkuframleiðslu landsins sem tryggingu, veðsetja lífeyrissparnað landsmanna og e.t.v. með 4 milljarðar evru-láni frá Rússum. Peningar frá Moskvu kunni þá aftur að hríslast um verslunarstræti London.
Að afla alls þessa fjár mun taka tíma, segir Lex, og verða erfitt viðfangs, sérstaklega þegar þess sé gætt að gjaldmiðill landsins sé í frosti. Á meðan gefist góður tími til að leita uppi blórabögglana. Þar séu Íslendingar efstir á lista sem áköfustu þátttakendurnir og stærstu skortsalarnir á heimamarkaði. Næst komi breska fjármálaeftirlitið því að þegar íslensku bankarnir gátu ekki fjármagnað sig með því að fá lánaða peninga á heildsölumarkaði með 15% vöxtum, hafi það verið fáránlegt að eftirlitið skuli hafa leyft sömu bönkum að soga til sín 4 milljarða punda af breskum innlánum á aðeins 6,5% vöxtum.