Verið er að endurskipuleggja rekstur deCODE, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar. Fram kemur í tilkynningu á vef félagsins að skerpa eigi sýn starfseminnar, selja eignir sem ekki tengjast kjarnastarfsemi og styrkja vöruþróun.
Á vef deCODE segir að á síðustu árum hafi fyrirtækið nýtt sér þá þekkingu, sem það býr yfir í lyfjaefnafræði, lífefnafræði og erfðagreiningu, til að þróa vörur og rannsóknir bæði í lækningafræði og erfðafræðilegri sjúkdómsgreiningu. Markmið endurskoðunar starfseminnar nú sé að hámarka virði þessara eigna fyrir hluthafa með því að skerpa sýn fyrirtækisins.
Hefur deCODE ráðið Stanford Group Company til að aðstoða við að meta möguleikana og tryggja að hægt verði að vinna hratt þegar niðurstöðurnar liggja fyrir.
„Við erum að skapa minna og grennra deCODE sem mun einbeita sér að einni tegund starfsemi," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í tilkynningunni.