„Ég á ekki von á því,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, spurður hvort til standi að greiða 500 milljóna evra lán sem bankinn tók og er á gjalddaga í dag.
Fyrrverandi stjórnendur Glitnis hafa greint frá því að þeir sáu ekki fram á að geta greitt þetta lán. Búið var að loka á aðgang bankans að lausafé. Fyrir 20 dögum var því tekin ákvörðun um að ganga á fund Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og biðja um lán til þrautavara. Hröð atburðarás fór af stað sem endaði á því að á mánudeginum 29. september ákvað ríkið að leggja til bankans 600 milljónir evra og eignast 75% hlut.
Árni segir að nú sé verið að skoða hvað verði gert við allar skuldir Glitnis. Því sé þetta mál í bið og ekki gert ráð fyrir að lánið verði greitt í dag.
Fáa óraði fyrir hvaða atburðarás færi af stað eftir ákvörðun Seðlabanka og ríkisstjórnar um að taka Glitni yfir. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og bankanna var lækkuð í kjölfarið. Þá varð fjármögnun þeirra banka sem eftir stóðu og voru í einkaeign, Landsbankans og Kaupþings, erfið.
Föstudagskvöldið 3. október var ljóst að forsendur fjármögnunar Landsbankans í Seðlabanka Evrópu voru breyttar. Reynt var að bregðast við því þá um helgina.
Mánudagskvöldið 6. október voru neyðarlög samþykkt á Alþingi sem veitti framkvæmdavaldinu nánast ótakmarkaðar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja.
Þriðjudagsmorguninn 7. október var Landsbankinn tekinn yfir af stjórnvöldum. Þá var stjórn Glitnis sett af að kvöldi sama dags.
Nálægt miðnætti 8. október var síðan ljóst að Kaupþing færi sömu leið. bjorgvin@mbl.is