Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu snarlækkuðu í dag vegna vaxandi ótta fjárfesta við að fjármálakreppan í heiminum leiddi til efnahagslægðar víða um heim.
Dow Jones-vísitalan í New York lækkaði um 7,87% og er það mesta lækkun í prósentum á einum degi frá árinu 1987. Nasdaq vísitalan lækkaði um 8,47% og er 1628 stig. Gengi hlutabréfa deCODE lækkaði um 17,57% og er nú 38 sent.
Hlutabréfavísitalan FTSE 100 í London lækkaði um 7,16%, CAC 40-vísitalan í París um 6,82% og DAX í Frankfurt um 6,49%.
„Hagkerfi heimsins stefnir enn í lægð þrátt fyrir tilraunirnar til að bjarga fjármálamörkuðum heimsins,“ sagði Carl Weinberg, aðalhagfræðingur High Frequency Economics í New York.