Bresk stjórnvöld íhuga að setja skiptastjóra yfir eignir Landsbankans í Bretlandi. Er endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young reiðubúið til að grípa inn í reksturinn að sögn blaðsins Times.
Blaðið segir, að verði Landsbankinn í Bretlandi settur í greiðslustöðvun muni það skaða enn frekar diplómatísk samskipti Íslands og Bretlands og einnig flækja hugsanleg tilboð í Baug í Bretlandi.
Times segir, að bresk stjórnvöld kunni að reyna að leggja hald á og selja eignir Landsbankans til að endurheimta fé, sem bresk sveitarfélög lögðu á innlánsreikninga bankans. Rekstur Landsbankans sé nú í höndum íslenskra stjórnvalda.
Þá segir blaðið, að breski kaupsýslumaðurinn Philip Green hafi beðið bresk stjórnvöld um stuðning í tilraunum sínum til að kaupa skuldir Baugs og ná þannig yfirráðum yfir rekstri félagsins í Bretlandi.
Daily Telegraph fjallar einnig um Baug í dag og fullyrðir, að framkvæmdastjórnir nokkurra félaga í eigu Baugs í Bretlandi séu að skoða möguleika á að kaupa hlut Baugs.