Enn vandamál á gjaldeyrismarkaði

Innlend greiðslumiðlun milli bankastofnana og viðskiptavina þeirra gengur vel, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Það sama á við um notkun íslenskra greiðslukorta, innanlands sem utan. Þótt innlend greiðslumiðlun sé með eðlilegum hætti verður ekki það sama sagt um greiðslur til og frá Íslandi. Þegar greitt er fyrir erlendan gjaldmiðil þurfa notendur kortanna að sjálfsögðu að gæta að genginu nú sem endranær.

Í byrjun þessa mánaðar styrkti Seðlabanki Íslands tímabundið gildandi samningssamband milli banka og sparisjóða sem gefa út greiðslukort og þeirra sem annast uppgjör viðskipta með þau. Þetta var gert til þess að tryggja hnökralausa notkun korta við ríkjandi aðstæður. Að mati bankans var á sama tíma óhjákvæmilegt að lækka háar ónotaðar úttektarheimildir til að draga úr áhættu. Þessi aðgerð ætti í fæstum tilvikum að hafa skapað vandamál.

Lang erfiðast gagnvart Bretlandi

„Þótt innlend greiðslumiðlun sé með eðlilegum hætti verður ekki það sama sagt um greiðslur til og frá Íslandi. Í sumum tilvikum sinna erlendir bankar, sem skipt er við, ekki eðlilegum óskum um greiðslur til íslenskra banka af ótta við að þær lendi í greiðslustöðvunarferli hjá viðtakanda eða berist hreinlega ekki til réttra móttakenda og ábyrgðin verði þeirra. Viðtakendur eiga í vandræðum með að standa í skilum vegna þessa. Hnökrar hafa verið á greiðslum til og frá öllum löndum. Lang erfiðasta staðan er þó gagnvart breskum aðilum sem rekja má beint til aðgerða breskra yfirvalda er valdið hafa verulegum skaða," að því er segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Seðlabanki Íslands hefur tekið upp tímabundna hjáleið í greiðslumiðlun gagnvart útlöndum með því að beina greiðslum bankastofnana til og frá Íslandi um eigin reikninga og reikninga erlendra samstarfsaðila Seðlabankans sem að öðru jöfnu hafa ekkert með starfsemi íslenskra bankastofnana að gera.

Nauðsynlegt að óvissu um Kaupþing verði eytt

Seðlabanki Íslands hefur verið farið fram á það að seðlabankar annarra ríkja beini þeim tilmælum til viðskiptabanka í eigin landi að greiðslum til Íslands verði miðlað í gegnum reikninga Seðlabankans. Seðlabankinn sér um að greiðslurnar berist réttum innlendum aðilum fyrir tilstuðlan innlendra banka eða sparisjóða. Þessi aðferð hefur þegar reynst vel gagnvart Danmörku og vonir standa til að það sama eigi við um önnur lönd innan tíðar.

Vandamálin við greiðslur til og frá Íslandi stafa bæði af aðstæðum hér á landi og erlendis. Gangsetning nýrra banka flýtir því að unnt verði að leysa hnúta sem myndast hafa. Nauðsynlegt er að sem fyrst verði ljóst hvernig starfsemi Kaupþings verði háttað, að því er segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK