Verð á hráolíu hefur ekki verið lægra í fjórtán mánuði en verð á hráolíu til afhendingar í nóvember lækkaði um 2,90 dali tunnan í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York í morgun. Er það nú 71,64 dalir tunnan. Í gærkvöldi lækkaði verð á hráolíu um 4,09 dali tunnan í 74,54 dali sem er lægsta lokagildi hráolíu á NYMEX markaðnum frá 31. ágúst 2007. Þann 11. júlí sl. fór hráolíuverð yfir 147 dali tunnan.
David Moore, sérfræðingur á olíumarkaði hjá Commonwealth bankanum í Sydney í Ástralíu segir að markaðurinn hafi miklar áhyggjur af þeirri efnahagslægð sem ríkir í heiminum og telja fjárfestar að eftirspurn eftir olíu eigi eftir að dragast enn frekar saman.
Í skýrslu OPEC ríkjanna í gær kom fram að eftirspurn eftir olíu hefði dregist verulega saman í hinum vestræna heimi í september. Er talið líklegt að á fundi OPEC ríkjanna í næsta mánuði verði ákveðið að draga enn frekar úr framleiðslu á hráolíu heldur en áður hafði verið ákveðið.
Í Lundúnum lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í nóvember um 2,85 dali tunnan í morgun og er 67,95 dalir.