Breska tískuvörufyrirtækið Mosaic Fashions, sem er í eigu Baugs og tengdra aðila auk Kaupþings, er í viðræðum við fjárfesta um að tryggja langtímafjárfestingu félagsins. Segir í frétt Times að á sama tíma styttist í að eignir Baugs Group verði seldar á brunaútsölu. Meðal fyrirtækja sem eru í eigu Mosaic eru, Oasis, Warehouse, Principles, Karen Millen, Coast og Odille.
Líkt og greint var frá á mbl.is í gær er fjárfestingafyrirtækið Alchemy Partners undir forystu John MoultonAlchemy, í viðræðum við Mosaic og House of Fraser, sem er það félag í eigu Baugs sem hefur gengið einna best. Í Times í dag eru fjárfestingafélögin Texas Pacific Group og Permira einnig nefnd til sögunnar um kaup á félögum í eigu Baugs í Bretlandi. Er þetta talið geta haft áhrif á möguleika breska kaupsýslumannsins Philip Green sem þegar hefur lýst yfir áhuga á að eignast félög Baugs í Bretlandi.
En allt virðist vera óljóst í þessum efnum og líkt og heimildarmaður Times orðaði það: „Það eru allir að tala við alla. Þetta er staða sem við höfum aldrei staðið frammi fyrir áður."
Heimildamaður Times úr hópi bankamanna sagði að smásöluverslanir Baugs á Íslandi séu mjólkurkýr fyrirtækisins (cash cow).