Bretar útskýra takmarkanir á viðskiptum við Landsbankann

Fjármálaráðuneyti Bretlands hefur sent frá sér yfirlýsingu sem er ætlað að liðka fyrir eðlilegu fjármagnsstreymi milli Íslands og Bretlands og útskýra í hverju takmarkanir Breta gagnvart Landsbankanum felast (Freezing Order). Kemur fram í yfirlýsingunni að bresk stjórnvöld hafi einungis stöðvað peningaflæði við Landsbankann en ekki aðra íslenska banka.

Segir í yfirlýsingunni að með henni sé reynt að skýra ástæðuna fyrir því að ákvæði laga um hryðjuverkastarfsemi var beitt en ákvæðið sem um ræðir lýtur að því að breska fjármálaráðuneytinu sé heimilt að grípa til þessa ef um óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði sé að ræða.

Kemur fram að frysting fjárflæðis eigi ekki að hafa áhrif á íslensk fyrirtæki sem ekki eru í samskiptum í gegnum Landsbankann.

Ástæðan fyrir því að talið var nauðsynlegt að grípa til aðgerða gagnvart Landsbankanum þann 8. október sé að óvissa hafi ríkt um stöðu Landsbankans eftir að Alþingi samþykkti neyðarlög þann 7. október. Setning þeirra hafi þýtt að staða breska lánadrottna hafi getað versnað gagnvart öðrum skuldunautum og að íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist að útskýra stöðu breskra skuldunauta og því hafi staðan ógnað efnahagsstöðu Bretlands.

Takmarkanirnar ná einvörðungu um sjóði sem eru í umsjón Landsbankans og sjóða sem tengjast Landsbankanum beint. Segir að þetta hafi mun minni áhrif heldur en ef gripið hafi verið til refsiaðgerða þar sem þetta snúi að takmörkuðum fjármálagjörningum. 

Þetta eigi ekki að hafa áhrif á hefðbundna fjármálagjörninga á milli Bretlands og Íslands  og alls ekki sé um það að ræða að takmarkanirnar nái til íslenskra stjórnvalda og þá sjóði sem þau eiga í Bretlandi né heldur greiðslur frá Bretlandi til íslenskra stjórnvalda. Eins séu ekki eignir dótturfélaga Landsbankans í Bretlandi frystar.

Opnað fyrir viðskipti

Fjármálaráðuneytið hefur sent á alla banka í Bretlandi tilkynningu um að opnað hafi verið fyrir allar millifærslur fjármagns til Íslands  í gegnum breska banka og einnig Landsbankann ef ljóst er að ekki sé verið að flytja frysta eignir Landsbankans til Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka