Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Ekkert laust fé er eftir í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum Landsbankans, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Slíkir sjóðir eru meðal annars peningamarkaðssjóðir sem þúsundir Íslendinga eiga hluti í.
Samkvæmt útreikningum sem framkvæmdir hafa verið að undanförnu eru einu eignirnar sem eru eftir í sjóðum bankans um 60 milljarðar króna í verðbréfum banka og 55 milljarðar króna í verðbréfum annarra. Verðbréf annarra eru meðal annars skuldabréf fyrirtækja sem óljóst er hvort geta staðið við skuldir sínar við sjóðina. Þá eru verðbréf annarra banka í besta falli talin verðlítil. Eignir í sjóðum Landsbankans eru því taldar vera mun lakari en í sjóðum hinna bankanna sem yfirvöld hafa tekið yfir.
Í sjóðum Glitnis eru alls 89 milljarðar króna. Þar af er laust fé 38 milljarðar króna, bréf annarra banka tveir milljarðar króna og önnur bréf 55 milljarðar króna. Stór hluti af lausafé sjóðanna var settur inn í þá af Glitni til að kaupa skuldabréf Stoða út úr sjóðum Glitnis. Þau voru metin á um 24 milljarða króna um mitt þetta ár. Skuldabréf Stoða voru keypt upp af Glitni áður en Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir bankann en eftir að ríkið ákvað að leggja Glitni til aukið hlutafé gegn 75 prósenta eignarhlut í honum. Í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum Kaupþings eru sem stendur 17 milljarðar króna í lausafé, fjórir milljarðar króna í bankabréfum og 10 milljarðar í annars konar bréfum.