Ísland í fjárhagslegri herkví Breta?

Breska fjármálablaðið Financial Times hefur í dag eftir forsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja, að breskir bankar virðist ekki afgreiða greiðslur til Íslands. Blaðið vísar einnig til yfirlýsingar Seðlabanka Íslands í gær um að ástæðu til að ætla að greiðslur sem eiga að koma frá erlendum aðilum til íslenskra banka séu stöðvaðar á leiðinni. 

Blaðið segir að alþjóðlegt fjármagnsstreymi hafi nánast stöðvast á Íslandi eftir að bankakerfi landsins hrundi í síðustu viku og engar millifærslur séu á milli Íslands og Bretlands. Íslenskir útflytjendur viti ekki sitt rjúkandi ráð.

„Mér sýnist að enskir bankar og bresk stjórnvöld hafi sett Ísland í herkví," hefur blaðið eftir Hirti Gíslasyni, eiganda Ögurvíkur. „Haldi þessi herkví áfram höfum við öll farið 20 ár aftur í tímann."

Seðlabankinn hefur beðið allar bankastofnanir erlendis að senda greiðslur gegnum hann. Nokkrir íslenskir útflytjendur segja hins vegar við FT, að breskir bankar neiti að senda fé gegnum Seðlabankann. Hjörtur segist vita af breskum viðskiptavini sem sé í fjórða skipti að leita að banka sem vilji afgreiða millifærslu til Íslands.  

FT hefur eftir Svavari Svavarssyni, markaðsstjóra HB Granda, að fyrirtækið hafi ekki fengið neina peninga frá Bretlandi, ekki heldur gegnum Seðlabankann en peningar komi frá öðrum löndum. 

Blaðið hefur eftir ónafngreindum talsmanni Seðlabankans, að erlendir bankar vilji ekki millifæra greiðslur til Íslands vegna þess að þeir óttist að þær komist ekki til skila. Vandamálið sé verst gagnvart Bretlandi, sem tengist beint þeim skaðlegu aðgerðum, sem bresk stjórnvöld gripu til gagnvart íslenskum bönkum. 

Breska fjármálaráðuneytið neitar sök og segir að bresk stjórnvöld hafi ekki með neinum hætti takmarkað viðskipti við íslenska banka að öðru leyti en því að eignir Landsbankans á Bretlandi hafi verið frystar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK