Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra, Lúxemborgar, sagði við blað í Lúxemborg í dag að þarlend stjórnvöld verði að aðstoða Kaupþing við að komast út úr erfiðleikum til að tryggja innistæður belgískra sparifjáreigenda og auka traust á fjármálakerfi landsins.
Viðtalið var tekið skömmu áður en Juncker átti viðræður við Yves Leterme, forsætisráðherra Belgíu, um sameiginlegar aðgerðir ríkjanna til varnar fjármálakerfinu.
„Ef almenningur í Belgíu telur, að ríkisstjórn Lúxemborgar aðstoði aðeins þá banka, sem hafa með innistæður Lúxemborgara að gera, þá myndi það ríða Lúxemborg sem fjármálamiðstöð að fullu," sagði Juncker.
Dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg hefur rekið útibú í Belgíu og Junker sagði að Lúxemborg bæri skylda til að veita belgískum sparifjáreigendum aðstoð.
Þegar hann var spurður hvort hann teldi að eitthvað lát væri að verða á alþjóðlegu fjármálakreppunni, sem hefur lagst með fullum þunga á Ísland, svaraði hann: „Ég sé ekkert ljós við enda ganganna."
Von er á Yves Leterme, forsætisráðherra Belgíu, til Íslands í dag til að ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um ástandið á fjármálamörkuðum en íslenskir bankar voru með talsverða starfsemi í Benelux-löndunum þremur: Lúxemborg, Belgíu og Hollandi.